Óvenjulega mikil hækkun hefur verið á úrvalsvísitölu hlutabréfamarkaðarins á árinu en hún hefur hækkað um 32 prósent það sem af er ári, og telst það hátt í alþjóðlegum samanburði.
Sé horft til þess hvað skýrir hækkanirnir, þá vegur þyngst mikil hækkun á markaðsvirði Marel, en virði þess nemur nú um 475 milljörðum króna, eða sem nemur tæplega 40 prósent af heildarvirði hlutafélaga á markaði.
Úrvalsvísitalan (OMXI10) hækkaði um 7,7 prósent í nóvember
Heildarviðskipti með hlutabréf í nóvember námu 64,3 milljörðum eða um 3 milljónum á hvern viðskiptadag. Það er 46 prósent hækkun frá fyrri mánuði, samkvæmt samantekt frá kauphöllinni, en í október námu viðskipti með hlutabréf um tveimur milljörðum á hvern viðskiptadag. Þetta er 12,3 prósent hækkun á milli ára (viðskipti í nóvember 2018 námu 2.729 milljónum á dag).
Mest voru viðskipti með bréf Marel (MAREL), 8,6 milljarðar, Festi (FESTI), 5,9 milljarðar, Arion banka (ARION ), 5,9 milljarðar, Símans (SIMINN), 4,9 milljarðar og Hagar (HAGA), 4,1 milljarðar.
Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Íslandsbanki með mestu hlutdeildina, 22,9 prósent (19,5% á árinu), Arion banki með 22,6 prósent (20,6% á árinu) og Kvika banki með 14,2 prósent (13,6% á árinu).
Í lok nóvember voru hlutabréf 24 félaga skráð á Aðalmarkaði og Nasdaq First North á Íslandi. Nemur heildarmarkaðsvirði skráðra félaga 1.233 milljörðum króna (samanborið við 1.159 milljarða í október).