Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, tilkynnti í dag að þingmenn deildarinnar myndu vinna að því að ákæra Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Á blaðamannafundi, þar sem ákvörðunin var kynnt, sagði Pelosi að staðreyndir málsins gegn Trump, væru með þeim hætti að ekki væri hjá því komist að grípa til aðgerða. „Lýðræði okkar er í húfi,“ sagði Pelosi. „Hann reynir að spilla kosningunum í eigin þágu. Forsetinn hefur gripið til valdníðslu, hann grefur undan þjóðaröryggi okkar og stefnir heilleika kosninga okkar í hættu.“
Ákvörðun um að hefja undirbúning ákæru á hendur forsetanum byggir meðal annars á mati þriggja lagaprófessora við Standford, Harvard og University of North Carolina, sem komu fyrir Bandaríkjaþing í gær og sögðu frá sínu mati á stöðu forsetans, vegna samskipta hans við yfirvöld í Úkraínu.
Analysis: How Republicans’ latest defenses of the Trump-Zelensky call fall short https://t.co/krtzgoxniy
— The Washington Post (@washingtonpost) December 5, 2019
Það var mat þessara prófessora allra, að Trump hefði gerst brotlegur við stjórnarskrána, og að hann hefði tekið sérhagsmuni sína fram yfir hagsmuni þjóðarinnar, og misbeitt valdi sínu með það að markmiði að ná fram hlutum fyrir sig persónulega.
Ef þetta er ekki brot, þá er ekkert brot, sögðu þessir þrír framangreindu prófessorar meðal annars.
Með fyrrnefndu ákæruferli (e. impeachment) geta þingmenn opinberlega sótt gegn embættismönnum ríkisstjórnarinnar. Búist er við því að Repúblikanar muni reyna með öllum ráðum að verja forsetann, og hafna þeim málatilbúnaði að Trump hafi brotið af sér.