Icelandair hefur gengið frá lánasamningi að fjárhæð 4,3 milljarðar króna eða 35 milljónir Bandaríkjadala við bandaríska bankann CIT Bank til fimm ára.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Um er að ræða endurfjármögnun í kjölfar uppgreiðslu skuldabréfaflokks félagsins fyrr á þessu ári.
Markaðsvirði Icelandair nemur 43,5 milljörðum króna, en töluverðar sveiflur hafa einkennt þróun markaðsvirðis félagsins á undanförnum mánuðum. Ennþá er félagið að glíma við neikvæð áhrif af alþjóðlegri kyrrsetningu á 737 Max vélum frá Boeing, en ekki liggur fyrir enn hvenær þær geta farið að fljúga aftur. Ástæðan fyrir kyrrsetningunni voru flugslys 29. október í fyrra í Indónesíu, og 13. mars á þessu ári í Eþíópíu. Samtals létust 346 í þeim, allir um borð í báðum vélum.
Eigið fé félagsins nemur nú rúmlega 500 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 60 milljörðum króna, sé miðað við stöðuna eins og hún var í lok þriðja ársfjórðungs.
Heildareignir félagsins nema um 190 milljörðum króna, en heildarskuldir voru um 130 milljarðar, sé miðað við stöðuna eins og hún var í lok þriðja ársfjórðungs.