Fjárreiður trúfélagsins Zuism eru til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara og rannsóknin er vel á veg komin. Þetta kemur fram á Vísi.
Þar kemur enn fremur fram að minnst hafi verið á rannsóknina í máli ríkislögmanns við aðalmeðferð í máli Zuism gegn íslenska ríkinu sem fram fór í liðinni viku. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfesti rannsóknina við Vísi.
Meðlimum í Zuism fjölgaði mikið á örfáum árum. Þeir voru tveir árið 2014 en fjöldi þeirra rauk upp í rúmlega þrjú þúsund í byrjun árs 2016, eftir að hópur manna taldi sig hafa tekið yfir félagið og ætlaði að endurgreiða fólki þau sóknargjöld sem innheimt yrði vegna þeirra.
Sagðir málamyndafélagsskapur
Zuism, undir forystu Ágústs Arnars, hefur staðið í málarekstri við ríkið vegna sóknargjalda sem hann telur félagið eiga að fá greidd. Í nóvember síðastliðnum var ríkið sýknað af kröfum Zuism um að fá dráttarvexti af 50 milljóna sóknargjöldum sem var haldið eftir. Íslenska ríkið var sýknað af þeim kröfum í nóvember.
Íslenska ríkið hefur reynt að koma í veg fyrir að Zuism fái greidd sóknargjöld þar sem óvissa sé uppi um að Zuism uppfylli skilyrði laga um trú- og lífsskoðunarfélög. Forsvarsmenn Zuism hafa stefnt ríkinu vegna þessa. Í vikunni fór fram aðalmeðferð í einum anga þess máls þar sem ríkislögmaður sagði að félagið væri málamyndafélagsskapur og að tilgangur þess væri að komast yfir fjármuni skattgreiðenda.
Félagsmönnum í Zuism hefur fækkað hratt á undanförnum árum, eftir að óvissa kom upp um hvort bræðurnir ætluðu sér nokkru sinni að endurgreiða sóknargjöldið, eða halda þeim fyrir sig sjálfa. Í upphafi þessa árs voru þeir orðnir um 1.600 og hefur því fækkað um tæpan helming frá árinu 2016.
Vildu fá lóð frá Reykjavík fyrir hof
Á vef Zúista segir í frétt frá því í fyrra, þar sem greint var frá því að trúfélagið hefði lagt fram umsókn um lóð í Reykjavík sem því var síðar synjað um, sagði að einn helsti guð sé Enlil og sé hann guð lofts og jarðar. Zigguratið muni heita í höfuð á hans helsta musteri sem hét Ekur. Þýðing á nafninu þýði fjallahof og sé eitt af helgustu hofum Súmera þar sem Ekur tákni miðja jarðar þar sem helgistaður guðanna og jörð mætist.
Samkvæmt teikningum átti byggingin sem Zúistar vildu byggja að vera á tveimur hæðum ásamt hofi ofan á annarri hæð. Stór stigi átti að vera alla leiðina frá jörðu upp að hofinu. Hofið yrði helgasti staður Zúista og þar geti farið fram athafnir svo sem giftingar, skírnir og tilbiðjanir. Einnig væri einn vinsælasti viðburður Zúista bjór og bæn þar sem gyðjan Ninkasi er heiðruð með lestri á ljóði sem sé einnig elsta bjóruppskrift í heimi.