Þingmenn þriggja flokka: Flokks fólksins, Samfylkingar og Pírata, hafa farið fram á að ríkisendurskoðun geri úttekt á starfsemi Lindahvols ehf. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Lindarhvol var félag sem stofnað var til að annast umsýslu, fullnustu og sölu á stöðugleikaeignum sem ríkissjóður fékk í sinn hlut í tengslum við nauðasamninga slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja félagið lauk starfsemi í byrjun febrúar 2018.
Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu segir að þótt félagið hafi starfað sem einkahlutafélag hafi það verið í eigu ríkisins og hlutverk þess opinbers eðlis. „Eignir ríkisins sem félaginu var falið að koma í verð voru umtalsverðar. Við stofnun var verðmæti þeirra metið um 60 milljarðar kr. Það skiptir miklu máli að vanda til verka við meðferð og sölu ríkiseigna. Félagið keypti einnig þjónustu af einkaaðilum fyrir háar fjárhæðir í tengslum við verkefni sín. Það er mikilvægt að almenningur geti treyst því að ríkið verji fjármunum sínum á skynsamlegan hátt og að samningar við einkaaðila séu gerðir á málefnalegum grundvelli. Því er tilefni til að ríkisendurskoðandi geri úttekt á starfsemi félagsins. Almenningur á rétt á því að vita hvort opinberra hagsmuna hafi verið gætt í starfsemi Lindarhvols.“
Í stjórn félagsins á meðan að það starfaði sátu Þórhallur Arason, formaður stjórnar og starfsmaður í fjármálaráðuneytinu, Ása Ólafsdóttir, meðstjórnandi, og Haukur C. Benediksson, meðstjórnandi.
Steinar Þór Guðgeirsson lögmaður, sem hafði verið ráðinn sem ráðgjafi fjármála- og efnahagsráðuneytisins í málefnum sem tengdust nauðasamningum við kröfuhafa föllnu bankanna og afnámi fjármagnshafta árið 2013, stýrði félaginu að mestu.Þ.e. starfseminni og daglegum rekstir félagsins var útvistað til lögmannsstofu hans, Íslaga. Á árunum 2016 og 2017 fékk Íslög greiddar 75 milljónir króna greiddar frá ríkinu fyrir þá þjónustu, án virðisaukaskatts.