Valitor hefur breytt skipuriti félagsins og einfaldað það þannig að fækkað er í stjórnendateymi félagsins úr tíu í fjóra. Þetta staðfestir Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, en Kjarninn beindi til hans fyrirspurn varðandi fækkun í stjórnendateymi félagsins.
Viðar segir fjóra aðila hafa látið af störfum hjá félaginu á síðustu vikum.
Í nýrri framkvæmdastjórn Valitor sitja Robert Gray, Christine Bailey, Birkir Jóhannsson og Viðar Þorkelsson.
„Þessar breytingar eru framkvæmdar samhliða áframhaldandi söluferli félagsins. Sem fyrr er lögð áhersla á að veita viðskiptavinum Valitor á Íslandi úrvalsþjónustu sem og viðskiptavinum á alþjóðlegum markaði,“ segir Viðar.
Valitor Holding, sem er dótturfélag Arion banka, er nú metið þá 11,7 milljarða króna í bókum bankans. Það er 4,1 milljarði króna lægri verðmiði en var á fyrirtækinu um síðustu áramót. Þetta kom fram í uppgjöri Arion banka fyrir þriðja ársfjórðung ársins 2019 sem var birt í lok október.
Tekjur Valitor hafa dregist saman um 1.240 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 þegar miðað er við sama tímabil í fyrra, og voru tæplega 3,6 milljarðar króna. Það er samdráttur í tekjum um rúman fjórðung á einu ári. Munar þar mestu um að þjónustutekjur drógust saman um 1,2 milljarða króna.
Á sama tíma hefur rekstrarkostnaður aukist úr 5,9 milljörðum króna í tæplega 7,8 milljarða króna, eða um 31 prósent.
Tap Valitor á þessu ári kemur í framhaldi af 1,9 milljarða króna tapi í fyrra. Samanlagt tap fyrirtækisins frá byrjun árs 2018 nemur því sex milljörðum króna. Árið 2017 skilaði Valitor 940 milljón króna hagnaði.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sagði í tilkynningu til Kauphallar Íslands, þegar uppgjör þriðja ársfjórðungs var birt, þar sem fjallað er um umtalsverðar niðurfærslur á virði eigna sem eru til sölu, að í tilfelli Valitor sé ástæðan vegna fjárfestingar í alþjóðlegri starfsemi og „gjaldfærsla kostnaðar vegna skipulagsbreytinga.“