Samkvæmt heimildum Kjarnans er unnið að því að sameina Frjálsa fjölmiðlum, útgáfufélag DV og tengdra miðla, og Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins og tengdra miðla. Líklegt er talið að tilkynnt verði um niðurstöðu þeirra þreifinga á morgun, föstudag. Ef af verður mun sameinað fyrirtæki verða afar stór leikandi á íslenskum fjölmiðlamarkaði og sá eini sem mun miðla efni í gegnum sjónvarp, prent- og netmiðla.
Helgi Magnússon fjárfestir keypti í sumar helminginn í útgáfufélagi Fréttablaðsins. Hann bætti síðan við sig hinum helmingnum í októbermánuð.
Samhliða var Ólöfu Skaftadóttur gert að hætta sem öðrum ritstjóra blaðsins og Jón Þórisson, fyrrverandi bankastjóri VBS fjárfestingabanka og lögmaður, tók við hennar stöðu. Hinn ritstjóri Fréttablaðsins er Davíð Stefánsson, sem hefur aðallega starfað við almannatengsl og ráðgjöf áður, sem var ráðinn í sumar.
Fjármagnað af huldumanni
Frjáls fjölmiðlun hóf starfsemi í september 2017. Félagið keypti þá fjölmiðla Pressusamstæðunnar: DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt, Birtu, Doktor.is, 433.is og sjónvarpsstöðina ÍNN. ÍNN var síðar sett í þrot.
Skráður eigandi að öllu hlutafé í Frjálsri fjölmiðlun er félagið Dalsdalur ehf. Eigandi þess er skráður lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson.
Á fyrstu fjórum mánuðum starfseminnar tapaði félagið 43,6 milljónum króna. Á síðasta ári jókst tapið umtalsvert og var um 240 milljónir króna. Samtals tapaði fjölmiðlasamstæðan því 283,6 milljónum króna á 16 mánuðum.
Samkvæmt ársreikningi Frjálsrar fjölmiðlar skuldaði samstæðan 610,2 milljónir króna í lok síðasta árs. Þar af voru langtímaskuldir 506,7 milljónir króna og voru að nánast öllu leyti við eigandann, Dalsdal.
Eina eign Dalsdals er Frjáls fjölmiðlun og skuld þess við félagið.
Ekki hefur verið greint frá því hver það er sem fjármagnar Dalsdal í ársreikningnum.