Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur tilnefnt Gunnar Jakobsson í embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun síðan skipa í embættið.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
Þar segir að forsætisráðherra hafi þann 3. október 2019 auglýst eftir varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika. „Fjármála-og efnahagsráðherra skipaði þriggja manna hæfnisnefnd til að fjalla um hæfni umsækjendanna og lauk hún störfum sl. mánudag. Niðurstaða hennar var að meta fimm umsækjendur mjög vel hæfa til að gegna embættinu. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur nú farið yfir gögn málsins, niðurstöður hæfnisnefndarinnar og tekið viðtöl við þá fimm einstaklinga sem nefndin mat mjög vel hæfa. Að loknu heildarmati hefur ráðherra ákveðið að tilnefna Gunnar Jakobsson í embættið.“
Gunnar Jakobsson er lögfræðingur að mennt, með MBA próf frá Yale og hefur undanfarin ár gegnt stjórnunarstöðum hjá Goldman Sachs, fyrst í New York og nú síðast sem framkvæmdastjóri lausafjársviðs og persónuverndar Goldman Sachs International í London.
Kjarninn greindi frá því 10. desember síðastliðinn að fimm umsækjendur hefðu verið metin mjög vel hæf, í mati hæfisnefndar á umsækjendum um stöðu varaseðlabankastjóra á sviði fjármálastöðugleika.
Það voru Guðrún Johnsen, Jón Þór Sturluson, Tómas Brynjólfsson, Gunnar Jakobsson og Yngvi Örn Kristinsson. Ásdís Kristjánsdóttir var metin vel hæf líkt og Óttar Guðjónsson.
Arnar Bjarnason og Kristrún Heimisdóttir voru metin hæf, í mati hæfisnefndar, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Athugasemdafrestur umsækjenda var gefinn til 13. desember, en nefndina skipa, auk Vilhjálms Egilssonar, rektors á Bifröst og formanns nefndarinnar, Ásta Dís Óladóttir, lektor við Háskóla Íslands, tilnefnd af samstarfsnefnd háskólastigsins, og Jacqueline Clare Mallet, lektor við Háskólann í Reykjavík, tilnefnd af bankaráði Seðlabanka Íslands.
Umsækjendur um starfið voru upphaflega 10, en einn umsækjenda, Haukur C. Benediktsson, var í millitíðinni ráðinn framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands.
Þau tíu sem sóttu um starfið, voru:
Arnar Bjarnason, lektor og framkvæmdastjóri
Ásdís Kristjánsdóttir, aðalhagfræðingur og forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins
Guðrún Johnsen, hagfræðingur
Gunnar Jakobsson, lögfræðingur
Haukur C. Benediktsson, hagfræðingur
Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins
Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur
Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga
Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu
Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja
Aðrir varaseðlabankastjórar eru Rannveig Sigurðardóttir og Unnur Gunnarsdóttir, en seðlabankastjóri er Ásgeir Jónsson. Verði Gunnar staðfestur í starfið mun yfirstjórn Seðlabankans, sem sameinast Fjármálaeftirlitinu um áramót, verða fullmönnuð.