Nordic Visitor hf. hefur keypt ferðaskrifstofuna Terra Nova Sól hf. af dótturfélagi Arion banka. Terra Nova var hluti af TravelCo hf., félagi sem bankinn tók yfir í júní 2019, í kjölfar gjaldþrots PrimeraAir.
Kaupin eru meðal annars með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki samkeppnisyfirvalda. Í tilkynningu er kaupverð sagt vera trúnaðarmál.
Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri Nordic Visitor, segir að Terra Nova og Nordic Visitor séu að mörgu leyti ólík þegar kemur að dreifileiðum og markaðssvæðum. Í því liggi þó mikil tækifæri.
TravelCo hf. var stofnað í kjölfar falls Primera Air og er í eigu eins helsta kröfuhafa þess félags, Arion banka. Félagið rekur ferðaskrifstofur á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Hérlendis hefur starfsemi TravelCo farið fram undir merkjum Terra Nova annars vegar og Heimsferða hins vegar.