Sýn hf.: Síminn hf. og Nova hf. hafa undirritað viljayfirlýsingu um viðræður um möguleika á samnýtingu og samstarfi við uppbyggingu fjarskiptainnviða.
Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar, en Sýn og Síminn eru bæði skráð á markað.
„Markmið viðræðna aðila er að kanna möguleika á því að vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagins, draga úr umhverfisraski og auka almannaöryggi með því að eiga með sér samstarf um uppbyggingu fjarskiptainnviða. Með viðræðunum vilja aðilar kanna möguleika á því að fyrirtækin geti byggt undir markmið Alþingis sem koma fram í stefnu Alþingis í fjarskiptum fyrir árin 2019-2033 um aðgengi að fjarskiptum, öryggi fjarskipta, hagkvæmni og skilvirkni fjarskipta sem og að draga úr umhverfisáhrifum fjarskipta. Mikilvægi fjarskipta í tengslum við náttúrúhamfarir kom bersýnilega í ljós í óveðri sem nýverið gekk yfir landið þar sem fjarskiptafyrirtækin geta unnið að því samfélagslega markmiði að tryggja eftir fremsta megni uppitíma fjarskipta þegar mikið liggur við, að því marki sem það er í þeirra höndum,“ segir í tilkynningu.
Viðræðurnar munu taka mið af fyrirhuguðum breytingum á fjarskiptalögum vegna innleiðingar á regluverki vegna samstarfs Íslands á vettvangi Evrópska Efnahagssvæðisins en þar er í auknum mæli hvatt til samreksturs, samfjárfestinga og samnýtingar fjarskiptainnviða, að því er segir í tilkynningu.
„Viljayfirlýsingin felur ekki í sér fjárhagslegar skuldbindingar fyrir fyrirtækin og hafa ekki áhrif á rekstur eða afkomu þeirra. Fyrirhugaðar viðræðurnar eru samhliða tilkynntar Samkeppniseftirlitinu og háðar samþykki þess ef þær leiða til samkomulags,“ segir jafnframt.