Refsingar vegna umferðarlagabrota munu þyngjast nú á nýju ári eftir að ný reglugerð um umferðarlög tók gildi þann 1. janúar síðastliðinn. Þar á meðal hafa sektir verið hækkaðar vegna ölvunaraksturs og sviptingar ökuréttinda lengdar.
Með nýju reglugerðinni varð til nýtt efsta refsiþrep við ölvunarakstri sem felur í sér að ef vínandamagn í blóði ökumanns mælist yfir 2,51 prómill varðar það sviptingu ökuréttar í þrjú ár og sex mánuði auk 270.000 króna sektar.
Með tilkomu nýs efsta þreps varð jafnframt til nýtt milliþrep en það er ef vínandi í blóði mælist 2,01 til 2,50 prómill á ökumaður yfir höfði sér sviptingu ökuréttar í þrjú ár og 240.000 króna sekt, en áður var slíkt magn í efsta þrepi og varðaði sviptingu ökuréttinda í tvö ár auk 210.000 króna sektar.
Jafnframt var svipting ökuréttinda lengd um sex mánuði ef ökumenn mælast með vínandamagn í blóði á bilinu 1,20 til 1,50 prómill og er því nú eitt ár og sex mánuðir, auk 180 þúsund króna sektar.
50 þúsund krónur fyrir að keyra yfir á rauðu ljósi
Aðrar hækkanir í kjölfar nýju reglugerðarinnar eru hærri sekt við akstri gegn rauðu ljósi en sú sekt hækkaði úr 30.000 í 50.000 krónur um áramótin. Auk þess verður sekt við því að vegfarandi sinni ekki skyldu við umferðaróhapp 30 þúsund krónur.
Umferðarlagabrotum hefur fjölgað mikið á síðustu árum. Í afbrotatölfræðiskýrslu lögreglunnar kemur fram að umferðarlagabrot voru rúmlega 78 þúsund á árinu 2018. Mikil fjölgun var á umferðarlagabrotum milli ára en flest umferðarlagabrot á íbúa eru á Norðurlandi vestra og Vesturlandi.