Samfylkingin mælist stærst allra flokka á Alþingi í nýrri könnun Maskínu með 19 prósenta fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 17,6 prósent en hann hefur aldrei mælst með lægra fylgi í skoðanakönnunum. Frá þessu er greint á Vísir.
Maskína framkvæmdi könnunina á dögunum 12. til 20. desember og um sextíu prósent af 914 svarendum tóku afstöðu til spurningarinnar: „Ef kosið yrði til Alþingis í dag hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?“. Ekki kemur fram í frétt Vísis hver skekkjumörk könnunarinnar eru.
Í könnuninni mælast Vinstri græn með 11,7 prósent fylgi og Framsóknarflokkurinn með 7,4 prósent. Fylgi ríkisstjórnarinnar mælist því einungis um 36,7 prósent.
Viðreisn og Píratar mælast hvor um sig með 14 prósenta fylgi. Frjálslyndu miðjuflokkarnir þrír í stjórnarandstöðu: Samfylking, Viðreisn og Píratar, mælast því í þessari könnun samanlagt stærri en stjórnarflokkarnir eða með 47 prósent fylgi.
Þá mælist Miðflokkurinn með 12,1 prósenta fylgi og Flokkur fólksins með 4,1 prósent.