Ritstjóri Skessuhorns segir að frumvarp um stuðning hins opinbera við einkarekna fjölmiðla sé einfaldlega lífsspursmál fyrir staðbundna miðla og héraðsfréttamiðla.
Magnús Magnússon, ritstjóri Skessuhorns- Fréttaveitu Vesturlands, lýsir yfir ánægðu með að frumvarp um opinberan stuðning við einkarekna fjölmiðla sé komið fram í umsögn sem hann hefur skilað til allsherjar- og menntamálanefndar.
Hann segir þar að framlagning frumvarpsins hafi dregist úr hömlu miðað við það sem sagt var þegar frumvarpsdrögin voru kynnt í upphafi árs 2019. „Ég lít svo á að frumvarp þetta og áhrif þess hafi afgerandi áhrif á framtíð allflestra fjölmiðla sem falla undir skilgreiningu þess. Hér er því um risastórt mál að ræða fyrir íslenska fjölmiðla sem staðið hafa í mikilli varnarbaráttu undanfarin ár, einkum vegna ytri breytinga.“
Varðandi staðbundna fjölmiðla og héraðsfréttamiðla eins og Skessuhorn segir Magnús að þá sé frumvarpið einfaldlega lífsspursmál. „Loks sýnist mér að Ríkissjóður muni ekki verða fyrir beinum útgjöldum vegna frumvarpsins, því ef til þess kæmi ekki, munu fjölmiðlar tapa tölunni með tilheyrandi tekjumissi fyrir Ríkissjóð. Ég fagna því frumvarpinu eins og það hefur verið kynnt.“
Mælt var fyrir frumvarpinu 16. desember síðastliðinn. Í því felst að að endurgreiddur verður 18 prósent af kostnaði vegna ritstjórnar upp að 50 milljónum króna, en upphaflega hafði staðið til að hún yrði 25 prósent af kostnaði. Ástæða þess að hlutfallið var lækkað var andstaðan hluta þingmanna Sjálfstæðisflokksins við málið. Auk þess gerir frumvarpið ráð fyrir sérstökum viðbótarstuðningi sem nemur allt að fjórum prósentum af þeim hluta af launum launamanna fjölmiðils sem falla undir lægra skattþrep tekjuskattsstofns. Kostnaðurinn við frumvarpið var takmarkaður við þær 400 milljónir króna sem þegar hefur verið tryggðar til málaflokksins á fjárlögum, sem samþykkt voru í desember 2019.
Frumvarp Lilju er nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd sem hefur kallað eftir umsögnum fyrir 10. janúar næstkomandi.
Auk Skessuhorns hefur Guðni Gíslason, útgefandi og ritstjóri Fjarðarfrétta, skilað umsögn, en síðasta tölublað af prentuðu blaði Fjarðarfrétta kom út 18. desember síðastliðinn. Ástæðan þess var, samkvæmt því sem fram kemur í umsögninni, erfitt rekstrarumhverfi, áhugaleysi bæjaryfirvalda að nýta blaðið sem auglýsingamiðil og mismunun á milli blaða. „Auk þess er sveitarfélagið í síauknum mæli í raun að reka eigin fjölmiðil sem gerir frjálsa blaðamennsku erfiðari.“
Guðni gerði athugasemd við þá kröfu sem sett er fram í frumvarpinu að til þess að fá stuðning þurfi að gefa út 48 tölublöð og að það væri óljóst hvort að krafa um að einn starfsmaður væri á staðbundnum miðli fæli í sér að viðkomandi sinnti einungis fréttaskrifum, en ekki öðrum störfum líka.