Sjö umsóknir bárust um embætti ríkislögreglustjóra sem auglýst var laus til umsóknar. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins í dag.
Eftirtaldir sóttu um embættið:
- Arnar Ágústsson öryggisvörður
- Grímur Grímsson tengslafulltrúi Íslands hjá Europol
- Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri á Norðurlandi Eystra
- Kristín Jóhannesdóttir lögfræðingur
- Logi Kjartansson lögfræðingur
- Páll Winkel fangelsismálastjóri
- Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu
Haraldur Johannesen, sem hafði verið ríkislögreglustjóri í 22 ár, samdi síðla árs í fyrra um starfslok sín við dómsmálaráðherra og er kostnaður vegna þeirra starfsloka áætlaður 47,2 milljónir króna án launatengdra gjalda. Þegar þeim er bætt við er kostnaðurinn 56,7 milljónir króna.
Í september síðastliðnum lýstu átta af níu lögreglustjórum landsins og formannafundur Landssambands lögreglumanna yfir vantrausti á Harald. Þeir báru viðtal sem hann fór við í Morgunblaðinu fyrr í þeim mánuði fyrir sig sem lykilástæðu þeirrar ákvörðunar.
Starf ríkislögreglustjóra var í kjölfarið auglýst laust til umsóknar og rann umsóknarfrestur út 10. janúar síðastliðinn.