Hækkanir á fasteignagjöldum í fimmtán fjölmennustu sveitarfélögum landsins voru í mörgum tilfellum langt umfram 2,5 prósent, að því er fram kemur í nýrri könnun ASÍ, en verðlagseftirlit sambandsins tók saman breytingar á fasteignagjöldum milli áranna 2019 og 2020.
Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir í samtali við Kjarnann að mikilvægt sé fyrir fólk í þessum sveitarfélögum að vita hvernig staða fasteignagjalda sé. Þessi gjöld séu einmitt hluti af stóru heildarmyndinni þegar litið er á það hvort verið sé að standa við lífskjarasamningana sem gerðir voru á síðasta ári.
Breytingarnar eru reiknaðar í krónum miðað við meðal fasteigna- og lóðamat í ákveðnum hverfum hjá þeim sveitarfélögum sem eru til skoðunar en fasteignagjöld eru í flestum tilfellum lögð á miðað við fasteigna- og lóðamat, segir í tilkynningu ASÍ um könnunina.
Langt umfram þau loforð sem gefin voru í tengslum við lífskjarasamningana
Gjöld á 100 fermetra íbúð í fjölbýli hækka mest á Sauðárkróki um 14,93 prósent eða 36.991 krónur en næst mest á Egilsstöðum um 11,06 prósent eða 29.515 krónur. Ef miðað er við 200 fermetra einbýli hækka gjöldin mest á Egilsstöðum, 10,3 prósent eða um 46.756 og næst mest í Glerárhverfi á Akureyri um 7,7 prósent eða 27.000 krónur.
Í tilkynningu ASÍ kemur fram að þessar hækkanir séu langt umfram þau loforð sem gefin voru í tengslum við lífskjarasamningana en Samband íslenskra sveitarfélaga lýsti stuðningi við þau með tilmælum til sveitarfélaga um að gjaldskrárhækkanir vegna ársins 2020 yrðu ekki umfram 2,5 prósent.
Drífa segir að góðu fréttirnar séu þær að gjaldskrár sveitarfélaganna hafi ekki hækkað umfram 2,5 prósent sem sé þó umfram verðbólgu, til að mynda leikskólagjöld. „En við höfum miklar áhyggjur af fasteignagjöldunum,“ segir hún og bendir til dæmis á gríðarlegar hækkanir sem orðið hafa á Sauðárkróki.
Fasteignamat hækkar en álagningarprósentur lækka ekki
Samkvæmt ASÍ má rekja hækkanir á Sauðárkróki til þess að fasteigna- og lóðamat hækkaði þar mikið í fjölbýli á milli ára á meðan álagningarprósentur sveitarfélagsins stóðu í stað auk þess sem sorphirðugjöldin hækkuðu. Næst mest hafi fasteignagjöld hækkað fyrir 100 fermetra fjölbýli á Egilsstöðum, 11,06 prósent eða 29.515 krónur, en svipaða sögu sé að segja þaðan þar sem fasteignamat hafi hækkað en álagningarprósentur hafi ekki verið lækkaðar til að stemma stigu við hækkunum. Miklar hækkanir hafi einnig verið á Reyðarfirði, 8,6 prósent, Akureyri, 6,35 til 6,57 prósent og á Völlunum Hafnarfirði, 6,20 prósent.
Fasteignagjöldin lækkuðu mest í Keflavík sé miðað við 100 fermetra fjölbýli, -9,61 prósent eða 28.722 krónur, og næst mest í Njarðvík, -3,88 prósent eða um 10.223 krónur. Sé miðað við 200 fermetra einbýli lækkuðu fasteignagjöldin mest á Ísafirði, -9,3 prósent eða um 38.969 krónur, og næst mest í Njarðvík, -4,4 prósent eða um 24.364 krónur, samkvæmt könnun ASÍ.
Hækkanir hafa „auðvitað áhrif“
Þegar Drífa er spurð út í það hvort þessar hækkanir hafi áhrif á lífskjarasamningana þá segir hún að auðvitað hafi þær áhrif ef ekkert annað verði gert á móti. „Á þessu stigi erum við að gefa okkar félagsmönnum færi á að skoða þessar tölur og þrýsta á breytingar.“
Hún segir þó að erfitt sé að taka heildstæða afstöðu út frá könnuninni vegna þess að tölurnar eru misjafnar milli sveitarfélaga, eins og kom fram hér að ofan. Þau hjá ASÍ skoði marga þætti þegar kemur að lífskjarasamningunum, til að mynda ástand efnahagsmála og hvort launahækkanir séu raunverulega að skila sér til fólks.