Samkvæmt bráðabirgðaútreikningum hefur losun CO2 ígilda frá flugsamgöngum dregist saman um 44 prósent á milli áranna 2018 og 2019. Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofa Íslands birti á vef sínum í dag.
Samdráttinn má rekja til fækkunar flugfélaga í millilandaflugi, en tvö íslensk flugfélög hættu rekstri í lok árs 2018 og upphafi árs 2019, WOW Air og Primera Air. Þá dróst flug Icelandair einnig saman, vegna kyrrsetningar á 737 Max vélunum frá Boeing.
Losun í flugrekstri jókst hins vegar um fimm prósent á milli áranna 2017 og 2018. Losun hér tekur eingöngu tillit til reksturs íslenskra félaga, en ekki losunnar vegna flugferða erlendra flugfélaga sem hafa viðkomu á Íslandi.
Einn fylgifiskur þess mikla vaxtar sem var í ferðaþjónustu á árunum 2011 og fram á árið 2019, var mikil aukning losunar á gróðurhúsalofttegundum, vegna vaxtar í flugi. Ferðamönnum fjölgaði úr 450 þúsund á ári árið 2010 í 2,7 milljónir árið 2018.
Eftir mikið vaxtarskeið er nú annað uppi á teningnum, og samdráttur í ferðaþjónustu er ein helsta ástæða þess að dregið hefur verulega úr hagvextir frá því sem verið hefur á undanförnum árum. Spár gera ráð fyrir að hagvöxtur verði í kringum 0,2 prósent á næsta ári, en á bilinu 2 til 3 prósent horft til næstu ára.