Þjóðhagsspá Íslandsbanka gerir ráð fyrir að hagvöxtur verði 1,4 prósent þessu ári, og að hann verði 2 til 2,4 prósent næstu tvö ár á eftir.
Spáin gerir ráð fyrir áframhaldandi hægagangi, ef svo má segja, og að atvinnuleysi muni aukast frá því sem nú er, áður en það fer aftur minnkandi.
Það er nú rúmlega 4 prósent, og hefur aukist nokkuð eftir fall WOW air og samdrátt því samhliða í ferðaþjónustu. Spáin gerir ráð fyrir að atvinnuleysi fari í 4,4 prósent á þessu ári, en verði svo komið í 3,8 prósent á næsta ári.
Í spánni segir að þrátt fyrir að atvinnuleysi sé að aukast, þá séu stoðir hagkerfisins á flesta mælikvarða sterkar. Þannig hafi hagkerfið í raun náð meiri styrk en var fyrir hendi fyrir hrun fjármálakerfisins, haustið 2008.
„Helsta skýring þessa er að þriðja auðlindin, þ.e. sérstaða Íslands og íslenskrar náttúru, bættist við fiskimiðin og endurnýjanlega orku sem meginundirstaða útflutningstekna. Auk þess tókst farsællega til við úrlausn mála tengdra bankahruninu og árangursrík hagstjórn hefur einnig lagt lóð á vogarskálarnar,“ segir í spánni.
Spá Íslandsbanka gerir ráð fyrir að húsnæðisverð hækki lítið sem ekkert næstu árin. Raunverð fasteigna, það er verðþróun að teknu tilliti til verðbólgu, hækkaði um 0,4 prósent í fyrra - sem er minnsta hækkun frá árinu 2012 - en spá Íslandsbanka gerir ráð fyrir að raunverð hækki um 0,6 prósent á ári næstu tvö árin. „Það sem styður þessa skoðun okkar er einna helst aukið framboð íbúða, hægari kaupmáttaraukning, aukið atvinnuleysi ásamt hægari fólksfjölgun. Hagstæð kjör á íbúðalánum auk stuðnings hins opinbera við kaupendur styðja hins vegar áframviðverðið. Má segja að þessi þróun á íbúðamarkaðnum sé að mörgu leyti kærkomin. Meiri ró hefur færst yfir markaðinn eftir ólgutímabil síðustu ár,“ segir í spánni.
Óhætt er að segja að þetta sé mikil breyting frá því sem var á árunum 2012 og fram á síðasta ár. Mest mældist árshækkun húsnæðis 23,5 prósent, vorið 2017.