Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að ef hægt sé að milda með einhverjum hætti það högg sem sveitarfélög verða fyrir ef af loðnubrest verður þá sé sjálfsagt mál að fara yfir það. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
Út er komin skýrsla um stöðu, áhrif og afleiðingar loðnubrests 2019 fyrir Vestmannaeyjar. Skýrslan er unnin að beiðni bæjarstjórnar af Hrafni Sævaldssyni sérfræðingi hjá Þekkingarsetri Vestmannaeyja.
Skýrsluna má finna á vefsíðu Vestmannaeyjabæjar en helstu niðurstöðurnar eru þær að loðnubrestur hafi bein áhrif á 350 starfsmenn og ígildi 60 ársverka. Tapaðar launatekjur í Vestmannaeyjum séu að minnsta kosti 1.000 milljónir króna. Tekjutap útgerðarfyrirtækja sé um 7.600 milljónir króna og annarra fyrirtækja um 900 milljónir. Vestmannaeyjabær og Vestmannaeyjahöfn verða af um 160 milljónum sökum þessa, samkvæmt skýrsluhöfundi.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, kynnti greininguna fyrir sjávarútvegsráðherra fyrr í vikunni.
Miklir hagsmunir í húfi
Í svari ráðherra kemur fram að skýrslan sýni svart á hvítu hversu miklir hagsmunir séu í húfi fyrir þessi sveitarfélög – fyrirtækin, starfsmenn og samfélagið allt. „Leitin stendur enn yfir og er mjög umfangsmikil eins og hefur komið fram – nú eru fimm skip við leitina. Því miður gefur leitin hingað til ekki miklar væntingar um framhaldið en vonandi ber leitin árangur, enda miklir hagsmunir í húfi fyrir fólk og fyrirtæki, og raunar allt íslenskt samfélag.“
Þá kemur jafnframt fram í svarinu að það yrði mikið högg, meðal annars fyrir þessi sveitarfélög, ef loðnubrestur yrði annað árið í röð en ráðherra gerði grein fyrir stöðunni á fundi ríkisstjórnarinnar á þriðjudaginn var. „Ef loðnubrestur annað árið í röð raungerist þá er fullt tilefni fyrir stjórnvöld að ræða það við þessi sveitarfélög með hvaða hætti verður hægt að taka á þeirri stöðu. Aðstæður eru misjafnar eftir sveitarfélögum en ef það er með einhverjum hætti hægt að milda þetta högg þá er sjálfsagt að fara yfir það.“
Vildu vita við hverju væri að búast
Íris bendir á í samtali við Kjarnann að ekki sé enn útséð um að loðna finnist en hún segir að staðan líti þó ekki vel út. „Þess vegna létum við gera þessa skýrslu. Svo við vitum við hverju megi búast,“ segir hún. Miklu máli skipti fyrir þetta samfélag að það séu loðnuveiðar enda hafi þær áhrif á um 350 starfsmenn í bæjarfélaginu.
Hún segist hafa kynnt skýrsluna fyrir sjávarútvegsráðherra í vikunni og að hann hafi sýnt mikinn skilning. Hún áréttar að í því samtali hafi hún ekki farið fram á sérstakan stuðning heldur hafi hún kynnt skýrsluna til þess að ræða áhrifin. Hún segir enn fremur að þetta ástand hafi áhrif á fleiri sveitarfélög en Vestmannaeyjar.