Eigið fé Landsvirkjunar nemur nú rúmlega 270 milljörðum króna, og hefur aukist um 34 milljarða á þremur árum. Ekkert íslenskt fyrirtæki er með meira eigið fé en Landsvirkjun, sé mið tekið af stöðunni eins og hún var í lok árs í fyrra.
Eins og greint var frá í dag, þá hagnaðist fyrirtækið um 13,6 milljarða króna í fyrra.
Íslenska ríkið er eigandi fyrirtækisins. Sé mið tekið af stöðu mála eins og hún var í lok árs í fyrra, þá nemur eigið fé þriggja stærstu ríkisfyrirtækjanna - Landsvirkjunar, Landsbankans og Íslandsbanka - samtals um 708,7 milljörðum króna. Eigið landsbankans var 247,7 milljarðar og hjá Íslandsbanka um 180 milljarðar.
Skuldir Landsvirkjunar hafa lækkað hratt undanfarin ár og engin breyting varð þar á í fyrra. Nettó lækkuðu þær um 23,4 milljarða króna á árinu og voru í árslok 204,7 milljarðar króna, eða 1.691 milljón Bandaríkjadala. Matsfyrirtækið Moody's hækkaði lánshæfiseinkunn fyrirtækisins á árinu og S&P Global Ratings breytti horfum á sinni einkunn úr stöðugum í jákvæðar.
Í fyrra greiddi Landsvirkjun um 4,3 milljarða króna í arð til eiganda síns vegna frammistöðu ársins 2018. Stjórn félagsins mun á komandi aðalfundi gera tillögu um arðgreiðslu til eigenda. Í nánustu framtíð er áætlað að hægt verði að greiða 10 til 20 milljarða króna á ári úr Landsvirkjun í arð til eiganda síns.
Til stendur að þessar arðgreiðslur myndi grunn fyrir Þjóðarsjóð sem í á að vera um 500 milljarðar króna eftir tæpa tvo áratugi. Frumvarp um Þjóðarsjóð er þó enn ósamþykkt og er sem stendur í þinglegri meðferð.