Fjármunamyndun landsmanna í íbúðarhúsnæði jókst um 31,2 prósent á síðasta ári. Sem hlutfall af landsframleiðslu á föstu verðlagi og hefur fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði ekki mælst hærri síðan árið 2007.
Þetta þýðir að 167,2 milljarðar króna bættust við eignasafn þeirra landsmanna og lögaðila sem áttu íbúðarhúsnæði á síðasta ári. Til samanburðar ar sú upphæð 121,8 milljarðar króna árið 2018 og á bilinu 50 til tæplega 80 milljarðar króna á árunum 2013 til 2016.
Þetta má lesa út úr nýjum tölum Hagstofu Íslands um hagvöxt síðasta árs sem birtar voru í gær.
Aðrar breytur en hærra húsnæðisverð ráðandi
Þessi þróun átti sér stað þrátt fyrir að húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu, þar sem stærsti hluti landsmanna býr, hafi einungis hækkað um 2,3 prósent á árinu. Það er mun minni hækkun en hafði verið árin á undan á tímabili þar sem eftirspurn var mun meiri en framboð. Sem dæmi hækkaði húsnæðisverð á svæðinu um 94 prósent frá árslokum 2010 og fram til loka árs 2017.
Vextir húsnæðislána hafa lækkað skarpt
Fyrir venjuleg heimili, sem eiga eitt íbúðarhúsnæðis, hafa lægri vextir húsnæðislána, sérstaklega hjá lífeyrissjóðum landsins, skipt mestu, enda hafa þeir tekið stóra dýfu niður á við á undanförnum árum og hún var mjög skörp í fyrra. Nú er ekki óalgengt að hægt sé að fá verðtryggð lán á breytilegum vöxtum á vel undir tveimur prósentum. Óverðtryggð lán hafa sömuleiðis lækkað nokkuð.
Vaxtalækkunarferli Seðlabanka Íslands, sem hefur alls lækkað stýrivexti sína um 1,75 prósentustig frá því í maí í fyrra, hefur haft nokkuð um þetta að segja. Nú eru þeir vextir, sem mynda til að mynda gólf fyrir óverðtryggð húsnæðislán, 2,75 prósent. Það er óþekkt á Íslandi, undir ríkjandi peningastefnu, að vextir séu svo lágir.
Verðbólga var líka skapleg meira og minna allt síðasta ár eftir að hafa risið skarpt í lok árs 2018 og sú þróun teygt sig inn á árið 2019. Hún fór undir 2,5 prósent verðbólgumarkmið Seðlabankans í lok síðasta árs og mældist 1,7 prósent í janúar. Nýjustu mælingar sýna þó að hún hefur tekið skarpan sveig upp á við á ný og mældist 2,4 prósent í lok febrúar.