Ellefu aðildarfélög Bandalags háskólamanna (BHM) hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem bent er á að í vikunni hafi landlæknir, sóttvarnalæknir og almannavarnir biðlað til heilbrigðisstarfsmanna og annarra sem starfa við viðbúnað vegna kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 að fresta utanlandsferðum eftir því sem kostur er. „Þessum tilmælum er meðal annars beint til margra félagsmanna eftirtalinna ellefu aðildarfélaga BHM sem starfa innan heilbrigðiskerfisins og á öðrum mikilvægum stofnunum ríkisins.“
Að mati félaganna sýna tilmælin „glögglega hve mikilvægir umræddir starfsmenn eru íslensku samfélagi.“
Það skjóti því skökku við að nú sé næstum liðið heilt ár frá því að kjarasamningar félaganna við ríkið hafi losnað og enn hafi viðræður um nýja samninga engum árangri skilað. Ganga verði til samninga við félögin án tafar og aflétta þannig því viðbótarálagi á starfsfólk sem óhjákvæmilega fylgi því að vera án kjarasamninga í tæpt ár. Þau séu ómissandi en samningslaus í skugga kórónuveirunnar.
„Félögin ellefu furða sig á því hve lítinn samningsvilja ríkisvaldið hefur sýnt í viðræðunum til þessa. Þau krefjast þess að fá raunverulegt samtal við viðsemjendur, að hlustað verði á sjónarmið félaganna og komið til móts við kröfur þeirra,“ segir í tilkynningunni.
BHM-félögin ellefu eru:
- Dýralæknafélag Íslands
- Félag geislafræðinga
- Félag íslenskra hljómlistarmanna
- Félag íslenskra náttúrufræðinga
- Félag lífeindafræðinga
- Félagsráðgjafafélag Íslands
- Iðjuþjálfafélag Íslands
- Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga
- Ljósmæðrafélag Íslands
- Sálfræðingafélag Íslands
- Þroskaþjálfafélag Íslands.