Níu þingmenn og varaþingmaður hafa lagt fram þingsályktunartillögu um fæðuöryggi á Íslandi. Ef hún yrði samþykkt þá væri ríkisstjórninni falið að skipa starfshóp til að móta stefnu um fæðuöryggi á Íslandi. Í starfshópnum ættu sæti fulltrúar Bændasamtaka Íslands, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Neytendasamtakanna og Samtaka verslunar og þjónustu. Starfshópurinn bæri að skila niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. desember næstkomandi.
Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Þorgrímur Sigmundsson, varaþingmaður Miðlflokksins, og með honum eru átta aðrir þingmenn Miðflokksins.
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að mikilvægt sé, nú sem áður, að tryggja fæðuöryggi í landinu. Ríkisstjórnin þurfi að móta stefnu um fæðuöryggi á Íslandi ef til þess kæmi að landið lokaðist fyrir vöruflutningum. Innviðir verði að geta staðist neyðarástand hvenær sem er, til að mynda vegna eldgoss eða heimsfaraldurs. „Hið mikla óvissuástand sem nú er uppi sýnir hve nauðsynlegt er að hafa áætlun á takteinum til að tryggja fæðuöryggi landsmanna,“ segir í greinargerðinni.
Umræðan ekki ný af nálinni
Þá kemur fram að umræða um fæðuöryggi sé ekki ný af nálinni. Árið 1996 hafi Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna staðið að ríkjaþingi um fæðuöryggi. Þar hafi verið samþykkt svonefnd Rómaryfirlýsing þar sem segir að fæðuöryggi sé tryggt þegar allir hafa raunverulegan og efnahagslegan aðgang hvenær sem er að heilnæmum og næringarríkum mat í nægilegu magni sem gerir þeim kleift að lifa virku og heilsusamlegu lífi. Til að tryggja fæðuöryggi þurfi hver þjóð að gera áætlun eftir efnum og ástæðum til að ná markmiðum sínum um fæðuöryggi, og vinna um leið með öðrum þjóðum nær og fjær við að skipuleggja sameiginlegar aðgerðir til að leysa úr viðfangsefnum sem ógna fæðuöryggi.
„Hér á landi hefur lengi verið kallað eftir stefnu um fæðuöryggi þjóðarinnar. Á búnaðarþingi árið 2009 var samþykkt ályktun um að brýnt væri að fæðuöryggi þjóðarinnar yrði tryggt. Í athugasemdum með ályktuninni var lögð áhersla á að gera heildstæða áætlun um hvernig það mætti gera, því að ekki væri alltaf hægt að treysta á að unnt yrði að flytja inn matvæli eða aðföng til matvælaframleiðslu,“ segir í greinargerðinni.
Í skýrslu nefndar um landnotkun frá árinu 2010 til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kom fram að það væri umhugsunarefni fyrir eyþjóð á borð við Íslendinga hvernig tryggja mætti stöðugleika fæðuframboðs fyrir þjóðina til langframa, enda yrðu allir aðdrættir erfiðleikum háðir við neyðaraðstæður sökum fjarlægðar frá mörkuðum og birgjum, að því er fram kemur í greinargerð þingmannanna. Nefndin hafi talið rétt að stjórnvöld hrintu af stað stefnumótun um hvernig fæðuöryggi þjóðarinnar yrði tryggt til framtíðar.