„Hér höfum við, með okkar besta fólki í stjórnkerfinu, safnað saman hugmyndum að framkvæmdum sem hægt er að ráðast í á þessu ári,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra á Alþingi í gær, í fyrri umræðu um sérstakt tímabundið fimmtán milljarða fjárfestingarátak ríkisins, sem er hluti af viðspyrnupakka ríkisstjórnarinnar vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19 faraldursins.
Í fjárfestingarátakinu kennir ýmissa grasa, en sundurliðun á þeim verkefnum sem áætlað er að ráðast í var birt á vef Alþingis á miðvikudagskvöld. Mest af þessu fé er eyrnamerkt samgönguverkefnum, eða rúmir sex milljarðar króna, 41 prósent af heildarpakkanum.
Stefnt er að því að ráðast í þetta fimmtán milljarða króna átak á grundvelli samsvarandi fjárheimildar sem finna má í fjáraukalagafrumvarpi sem lagt var fram á þinginu fyrir tæpri viku síðan, en einnig er stefnt að fimm milljarða fjárfestingum á vegum fyrirtækja í eigu ríkisins.
„Átakinu er ætlað að stuðla að arðbærum fjárfestingum sem auki eftirspurn eftir vinnuafli og framleiðslugetu hagkerfisins. Gert er ráð fyrir því að ráðist verði í fjölbreytt verkefni á málefnasviðum flestra ráðuneyta. Mikilvægt er að verkefnin skapi eftirspurn eftir ólíkum tegundum starfa, jafnt kvenna sem karla og að þau dreifist um landið,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.
Í umræðum í þinginu í gær kom það fram í máli nokkurra þingmanna að fimmtán milljarðar væru ekki nægilega há upphæð, meira þyrfti til á þessum tímapunkti. Samtök iðnaðarins kölluðu einnig eftir því, í umsögn sinni um fjáraukalagafrumvarpið, að strax á þessu ári yrði ráðist í framkvæmdir í samgöngum og byggingum sem næmu að minnsta kosti 30-35 milljörðum umfram núverandi áætlanir.
Fjármálaráðherra svaraði gagnrýni í þessa átt með þeim hætti að hann hefði áhyggjur af því að erfitt yrði að koma 30-40 milljörðum króna úr ríkissjóði „í vinnu“ á þeim níu mánuðum sem eftir lifa árs og fá hagstæð verð, ef menn ætluðu að „troða peningum ofan í verktakageirann.“
„Við gætum misst stjórn á framboði og eftirspurn,“ sagði Bjarni.
Óttast að verið sé að gera of lítið
Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingar og nefndarmaður í fjárlaganefnd, óttast þrátt fyrir þetta að ekki sé verið að gera nóg. Hann bendir sérstaklega á, í samtali við Kjarnann, að auðvelt væri að margfalda framlögin sem áætluð eru til nýsköpunar. Samkvæmt þingsályktunartillögunni stjórnarinnar er áætlað að framlög í Rannsóknasjóð og Innviðasjóð verði samanlagt aukin um 400 milljónir og þá er gert ráð fyrir 400 milljón króna aukaframlagi til Tækniþróunarsjóðs.
„Ríkið þarf að stíga miklu fastar inn í nýsköpunarumhverfið,“ segir þingmaðurinn og bætir við að hann telji að afnema ætti þak á endurgreiðslur á þróunarkostnaði og leggja meiri fjármuni í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. „Ráðherrarnir segja að þeir vilji frekar gera of mikið en of lítið, en ég óttast að þeir séu að gera hið gagnstæða,“ segir Ágúst Ólafur.
„Óafsakanlegt“ að ekki sé hægt að styðja verðug nýsköpunarverkefni
Annar nefndarmaður í fjárlaganefnd, Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata, tekur í sama streng hvað framlög til nýsköpunar varðar. Hann bendir á það sem fram kom í umsögn Samtaka iðnaðarins um fjáraukalagafrumvarpið, að einungis 27% þeirra verkefna sem fengu hæstu einkunn í mati Tækniþróunarsjóðs fengu úthlutun úr sjóðnum. Samtök iðnaðarins sögðu þetta benti til ónýttra tækifæra og Björn Leví er sammála því.
„Svoleiðis gat er óafsakanlegt,“ segir þingmaðurinn, „því við vitum öll ábatann af þeim verkefnum.“ Hann bætir við að ef atvinnuleysi fari á flug á næstu mánuðum væri gott að setja rannsóknar- og nýsköpunarverkefni af stað, sem gætu skapað fjölda fjölbreyttra starfa ofan á þau störf sem skapast við viðhalds- og framkvæmdaverkefnum sem áætlað er að ráðast í.
Hvað heildarupphæð fjárfestingarátaksins varðar segir Björn Leví að honum þyki fimmtán milljarðar, eða tuttugu, ágætt fyrsta skref, enda hafi stjórnvöld boðað að ráðist verði í frekara fjárfestingarátak á árunum 2021-2023.
„En það eru göt þarna, sem mætti stoppa upp í,“ segir Björn og bætir við að stjórnvöld þyrftu að hans mati að gera meira, í viðspyrnu sinni vegna efnahagslegra áhrifa heimsfaraldursins, til þess að vernda viðkvæmustu hópa samfélagsins.