Nú er gert ráð fyrir því að rúmlega 2.100 manns muni greinast með COVID-19 hér á landi í þessari bylgju faraldursins, en talan gæti náð 2.600 samkvæmt svartsýnni spá. Þetta kemur fram í uppfærðri forspá vísindamanna Háskóla Íslands, Landspítala og landlæknisembættisins, sem miðast við gögn til og með 5. apríl.
Gert er ráð fyrir því að fjöldi þeirra sem eru með virkan sjúkdóm nái hámarki í þessari viku og að þeir verði um 1.400 talsins. Samkvæmt svartsýnni spá gæti þó farið svo að toppnum verði ekki náð fyrr en í næstu viku og að 1.700 einstaklingar hafi þá virkan sjúkdóm á sama tíma.
Samkvæmt nýjustu gögnum er gert ráð fyrir því að á meðan þessi bylgja faraldursins fer yfir þurfi 140 manns að leggjast inn á sjúkrahús, en fjöldinn gæti náð hátt í 170 manns. Mest álag á heilbrgiðisþjónustu verður fyrir miðjan apríl, en þá er gert ráð fyrir að um það bil 70 einstaklingar geti verið inniliggjandi á sama tíma, en svartsýnni spá er 90 einstaklingar.
Uppfærð forspá gerir ráð fyrir því að tíma faraldursins muni 28 einstaklingar veikjast alvarlega og þurfa gjörgæsluinnlög, en svartsýnni spá gerir ráð fyrir því að þessir sjúklingar verði allt að 41 talsins.
Mestu álagi á gjörgæsludeildir er spáð í annarri viku apríl, en þá er búist við því að 11 sjúklingar liggi á gjörgæslu á sama tíma, en samkvæmt svartsýnni spá gætu það verið 19 manns.
Ef fleiri eldri fara að veikjast má búast við þyngri stöðu
Vert er að hafa í huga, segja vísindamennirnir, að hér á landi hefur aldursdreifing smitaðra einstaklinga verið hagstæð til þessa.
Smávægileg hliðrun aldursdreifingar í átt að fleiri greindum smitum meðal einstaklinga yfir sextugt myndi auka álag á heilbrigðisþjónustu talsvert, samkvæmt hermun sem vísindamennirnir framkvæmdu.
Ef fleiri eldri manneskjur myndu smitast en raunin hefur verið til þessa gæti staðan í heilbrigðiskerfinu þannig orðið töluvert þyngri og uppsafnaðar gjörgæslulegur orðið vel yfir 50 talsins.
Jafnvel gæti farið svo að allt að 25 manns þyrftu á gjörgæsluinnlögn á sama tíma skömmu fyrir miðjan mánuðinn, samkvæmt svartsýnni spá sem byggir á því að fleiri smit greinist hjá eldra fólki.