Landsréttur hefur staðfest tíu mánaða skilorðsbundinn dóm sem Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi, hlaut í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir peningaþvætti. Landsréttur dæmdi Júlíus Vífil einnig til að greiða allan málskostnað og kostnað við áfrýjun dómsins. Þetta kemur fram í frétt RÚV í dag.
Júlíus Vífill var í desember 2018 dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir peningaþvætti, eins og áður segir. Saksóknari í málinu hafði farið fram á átta til tólf mánaða óskilorðsbundið fangelsi.
Kjarninn greindi fyrstur miðla frá því að Júlíus Vífill hefði verið ákærður í ágúst 2018. Hann viðurkenndi við rannsókn á meintum efnahagsbrotum hans að hann hefði framið skattalagabrot. Þetta kom fram í ákæru á hendur honum sem héraðssaksóknari gaf út 28. júní síðastliðinn. Í þeirri játningu fólst að Júlíus Vífill viðurkenndi að hann gaf ekki upp til skatts tekjur sem honum hlotnuðust árið 2005, eða fyrr, og geymdar eru á aflandsreikningi. Júlíus Vífill hefur ekki viljað upplýsa um hvenær umræddra tekna var aflað og því er ekki hægt að segja með vissu hver ávinningur hans af skattalagabrotunum hefur verið.
Skattalagabrot fyrnast hins vegar á sex árum. Það þýðir að ef viðkomandi fremur slík, og kemur sér þannig undan að greiða lögbundinn skatt eins og aðrir þegnar ríkja þurfa að gera, en nær að hylja þau í þann tíma þá kemst hann upp með það. Öðru máli gegnir hins vegar um peningaþvætti. Lögum landsins var breytt árið 2009 þannig að refsivert var að þvætta ávinning af eigin afbrotum. Því var Júlíus Vífill ákærður fyrir peningaþvætti frá þeim tíma sem lögin tóku gildi, eða frá 30. desember 2009. Dómur hefur nú fallið í því máli.
Var í Panamaskjölunum
Júlíus Vífill var einn þeirra stjórnmálamanna sem voru opinberaðir í Panamaskjölunum og greint var frá í sérstökum Kastljósþætti sem sýndur var 3. apríl í 2016. Þar kom meðal annars fram að hann hefði í ársbyrjun 2014 stofnað félagið Silwood Foundation á Panama. Rík áhersla var lögð á það við stofnun félagsins að nafn Júlíusar Vífils kæmi hvergi fram í tengslum við félagið, samkvæmt umfjölluninni.
Tveimur dögum áður en að Kastljósþátturinn var sýndur sendi Júlíus Vífill frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði að tilgangurinn með stofnun aflandsfélagsins væri að stofna eftirlaunasjóð í Sviss. „Allt sem við kemur þessum sjóði er í samræmi við íslensk lög og reglur, enda naut ég sérfræðiráðgjafar til að tryggja að réttilega og löglega væri að málum staðið. Mér var ráðlagt að skrá stofnun sjóðsins í Panama. Ég hef hvorki fengið neitt greitt úr sjóðnum né haft af honum annars konar tekjur og hef ekki heimild til að ráðstafa fjármunum úr honum.”
Júlíus Vífill sagði af sér sem borgarfulltrúi 5. apríl 2016, tveimur dögum eftir að þátturinn var sýndur.
Sakaðir um að koma ættarauð undan
Systkini Júlíusar Vífils og erfingjar foreldra hans hafa sakað hann og bróður hans, Guðmund Ágúst Ingvarsson, um að komið ættarauð foreldra þeirra undan og geymt hann á aflandsreikningum. Það gerðu þau meðal annars í Kastljósþætti sem sýndur var í maí 2016. Meintur ættarauður eru sjóðir sem urðu til vegna starfsemi Ingvars Helgasonar hf., sem um árabil var eitt stærsta bílaumboð landsins.
Þessum ávirðingum hefur Júlíus Vífill ávallt hafnað með öllu. Í viðtali við Morgunblaðið í maí 2016 sagði hann þvert á móti að systkini hans hefðu dregið af sér tugi milljóna króna af bankareikningi móður þeirra og í yfirlýsingu sem Júlíus Vífill sendi frá sér sagði hann að ásakanir systkina sinna væru algjör ósannindi og ómerkileg illmælgi.
Þann 5. janúar 2017 kærði skattrannsóknarstjóri Júlíus Vífil til embætti héraðssaksóknara vegna meintra brota á skattalögum og vegna gruns um peningaþvætti. Við síðara brotinu getur legið allt að sex ára fangelsisdómur.
Í kærunni kom fram að Júlíus Vífill hafi átt fjármuni á erlendum bankareikningum að minnsta kosti frá árinu 2005. Frá árinu 2014 hafi þeir verið hjá svissneska bankanum Julius Bär í nafni aflandsfélags Júlíusar Vífils.
Ráðleggingar „svo þetta endi ekki allt í skatti“
Héraðssaksóknara barst hljóðupptaka frá embætti skattrannsóknarstjóra þann 27. mars 2017. Um svipað leyti var sama upptaka send á fjölmiðla.
Á upptökunni, sem er af fundi sem fór fram þremur dögum eftir birtingu Panamaskjalanna, mátti heyra Júlíus Vífill og lögmann hans, Sigurð G. Guðjónsson, ræða um þá fjármuni sem vistaðir voru í svissneska bankanum við ættingja Júlíusar Vífils, sem höfðu ásakað hann um að hafa komið ættarauð foreldra sinna undan og geymt á aflandsreikningum. Júlíus Vífill vildi að Sigurður G. Guðjónsson myndi verja sig í málinu sem héraðssaksóknari hefur rannsakað á hendur honum. Á það vildi héraðssaksóknari ekki fallast þar sem embættið vildi kalla Sigurð til skýrslutöku í málinu og það útilokaði ekki að Sigurður fái stöðu sakbornings í því. Ástæðan eru þær ráðleggingar sem Sigurður veitir á hljóðupptökunni, um hvernig sé hægt að komast hjá því að greiða fjármunina til systkina Júlíusar Vífils án þess að „þetta endi ekki allt í skatti“.
Þessi upptaka átti þátt í því að ákæra var gefin út á hendur Júlíusi Vífli og er ferlinu nú lokið með dómi Landsréttar í málinu.