„Málið er einfalt það á að birta þennan lista!“ Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í stöðuuppfærslu á Facebook í kvöld.
Þarna vísar hann í lista yfir þau fyrirtæki sem nýta sér hlutabótaleið stjórnvalda. „Það er ein af forsendunum fyrir aðgerðunum sem eru til að vernda störf á fordæmalausum tímum,“ skrifar hann.
Vinnumálastofnun sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem stofnunin vildi koma því á framfæri að hún teldi sig hvorki hafa heimild til að afhenda né birta lista yfir þau fyrirtæki sem gert hafa samkomulag við starfsmenn sína um minnkað starfshlutfall.
„Þessi afstaða stofnunarinnar byggir á lögum um persónuvernd því það liggur fyrir að ef birtur er listi fyrirtækjanna þá er auðveld leið að finna út nöfn þeirra sem fengið hafa greiddar atvinnuleysisbætur í minnkuðu starfshlutfalli.
Það er óumdeilt, að rík skylda hvílir á stofnuninni að gæta þess að engin leið sé að nálgast upplýsingar um það, hvaða einstaklingar fái greiðslur frá henni, hvort sem um er að ræða atvinnuleysisbætur, fæðingarorlof, greiðslur úr Ábyrgðasjóði launa og svo framvegis,“ segir í yfirlýsingunni. Um greiðslur til einstaklinga í minnkuðu starfshlutfalli gildi sömu lög og reglur.
Málið er einfalt það á að birta þennan lista! Það er ein af forsendunum fyrir aðgerðunum sem eru til að vernda störf á fordæmalausum tímum.
Posted by Guðlaugur Þór Þórðarson on Friday, May 8, 2020