Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 23,5 prósent í nýrri skoðanakönnun frá MMR og eykst um rúmt prósentustig frá síðustu könnun. Píratar fylgja í kjölfarið með 14,6 prósent stuðning og eykst fylgi flokksins um þrjú prósentustig á milli mælinga.
Fylgi Samfylkingar jókst um eitt prósentustig og mælist nú 13,3 prósent en fylgi Framsóknarflokksins minnkar um tæplega þrjú prósentustig frá síðustu mælingu MMR og mælist núna 6,4 prósent, sem er það minnsta sem flokkurinn hefur mælst með í könnunum MMR frá síðustu kosningum árið 2017.
Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 47,5 prósent og minnkar um tæp sjö prósentustig frá síðustu könnun, þar sem stuðningur mældist 54,5 prósent. Stuðningur við stjórnina er þó enn nokkuð meiri en áður en kórónuveirufaraldurinn fór að geisa, en þá mældist hann 38,8 prósent, 21. febrúar.
Síðasta könnun MMR var birt 8. maí, en þessi nýja mæling á stuðningi við flokkana var gerð dagana 19.-25. maí.
Lítil hreyfing er á mældu fylgi annarra flokka, en Viðreisn mælist fjórði stærsti flokkurinn með 11,3 prósent, þar næst kemur Miðflokkurinn sem mælist með 10,8 prósent og svo koma Vinstri græn sem mælast með 10,6 prósent, einu prósentustigi minna en í síðustu könnun MMR.
Sósíalistaflokkur Íslands mælist með 4,1 prósent og Flokkur fólksins mælist með 3,6 prósent. Stuðningur við aðra mældist 1,8 prósent samanlagt.
Skoðanakönnunin var sem áður segir framkvæmd dagana 19.-25. maí og bárust alls 944 svör Íslendinga 18 ára og eldri sem valdir voru af handahófi úr hópi álitsgjafa MMR.