Alþingi hefur samþykkt þingsályktunartillögu um mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu. Tillagan var áður flutt í fyrra. Fyrsti flutningsmaður var Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og með honum voru fimm þingmenn og einn varaþingmaður úr sama flokki.
Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra verður falið í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra að móta stefnu fyrir einstaklinga og fjölskyldur af erlendum uppruna sem hafi það að markmiði að auka gagnkvæman skilning og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins.
Sérstök áhersla verður lögð á félagsleg réttindi, heilbrigðisþjónustu, menntun og atvinnuþátttöku þannig að á Íslandi verði fjölmenningarsamfélag þar sem grundvallarstefin eru jafnrétti, réttlæti og virðing fyrir lífi án mismununar. Ráðherra skal kynna stefnuna fyrir Alþingi í upphafi næsta þings.
Ekki rými fyrir fordóma, mismunun á grundvelli kynþáttar né neins konar mismunun
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að niðurstöður kosninga í mörgum Evrópuríkjum síðustu misserin gefi til kynna að uppgangur og útbreiðsla öfgaafla sem ala á þjóðernishyggju og andúð á útlendingum og fjölmenningu sé staðreynd. Hér á landi hafi slík sjónarmið einnig fengið hljómgrunn og í mörgum ríkjum hafi flokkar sem tala fyrir útlendingaandúð komist í áhrifamiklar stöður, á þing og í sveitarstjórnir, og í sumum ríkjum hafi fulltrúar þeirra jafnvel komist í forsetastól.
Þá segir að Ísland eigi að vera í forystu þegar kemur að því að takast á við þessa þróun og byggja á sterkum grunngildum réttlætis. Hér sé þegar orðið fjölþjóðlegt samfélag sem á að hafa í heiðri jafnrétti og réttlæti þar sem borin sé virðing fyrir frelsi hvers og eins til þess að aðhyllast trúarbrögð, lífsskoðanir og lífsgildi af ólíkum toga, án mismununar. Í slíku samfélagi sé ekki rými fyrir fordóma, mismunun á grundvelli kynþáttar né neins konar mismunun, hvort sem er vegna trúar, menningar eða annarra þátta.