Rekstrarafkoma ríkissjóðs á síðasta ári var jákvæð um 42 milljarða króna í fyrra, samanborið við 84 milljarða afgang árið áður. Þetta kemur fram í nýbirtum ríkisreikningi fyrir árið 2019. Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu segir að tekjur hafi samtals numið 838 milljörðum króna en gjöld 818 milljörðum. Hrein fjármagnsgjöld voru neikvæð um 57 milljarða króna en hlutdeild í afkomu félaga í eigu ríkisins jákvæð um 78 milljarða króna.
Í tilkynningu segir að afkoma ársins samkvæmt hagskýrslustaðli sé lakari en áætlun gerði ráð fyrir: „Þegar afkoma ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi er borin saman við afkomumarkmið fjármálaáætlunar og fjárlaga er það gert á grunni hagskýrslustaðals (GFS). Á þeim grunni er heildarafkoma ríkissjóðs árið 2019 neikvæð um 39 ma.kr. sem er um 24 ma.kr. lakari afkoma en endurskoðuð áætlun ársins gerði ráð fyrir. Fjárlög ársins 2019 gerðu ráð fyrir að heildarafkoma yrði jákvæð um 29 ma.kr.“
Í inngangsorðum að ríkisreikningi ritar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að blikur hafi verið á lofti í efnahagsumhverfinu strax á fyrstu mánuðum ársins 2019. Umsvif ferðaþjónustunnar hafi minnkað og það hafi haft bæði bein og óbein áhrif á ríkisreikninginn.
„Nú er orðið ljóst að sá mótbyr sem ferðaþjónustan mætti snemma árs 2019 var aðeins forleikur að þeim ófyrirséðu efnahagshremmingum á flestum sviðum atvinnulífsins sem fylgdu heimsfaraldri kórónuveirunnar á vordögum þessa árs. Má telja að þróun mála árið 2019 hefði getað orðið upphafið að skammvinnri efnahagslægð en að hún hafi nú stökkbreyst í einn dýpsta og víðtækasta efnahagsskell í manna minnum. Engu að síður telja flestir spáaðilar að kreppan verði skammvinn og að efnahagsbatinn hefjist þegar á árinu 2021,“ segir Bjarni enn fremur í inngangsorðum ríkisreiknings.
Þá segir hann helstu áskorun stjórnvalda vera að skapa góð skilyrði fyrir efnahagsbata. „Svigrúm ríkissjóðs til að auka við skuldir sínar gerir stjórnvöldum betur kleift að verja grunnstoðir samfélagsins og tryggja öfluga viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf án þess að fórna sjálfbærni opinberra fjármála,“ segir Bjarni í lok inngangsorða að ríkisreikningi.