Alls fækkaði störfum í ferðaþjónustunni um 55% á öðrum ársfjórðungi miðað við sama tímabil árið á undan. Á sama tíma hefur störfum í sjávarútvegi hins vegar fjölgað um 52% og störfum í annarri sérhæfðri þjónustu nær tvöfaldast. Þetta kemur fram í gögnum úr starfaskráningu Hagstofu Íslands.
Störfum í ferðaþjónustu og framleiðslu fækkar mest
Líkt og Kjarninn greindi frá fyrr í vikunni voru um 27 þúsund færri störf á öðrum ársfjórðungi í ár miðað við annan ársfjórðung í fyrra. Mest fækkaði störfum í ferðaþjónustu, eða um 16.800 talsins. Einnig minnkuðu aðrir geirar töluvert í vor miðað við árið á undan, en á því tímabili fækkaði framleiðslustörfum um rúmlega tíu þúsund auk þess sem byggingarstörfum fækkaði um tæplega fimm þúsund.
Ekki finna þó allar atvinnugreinar fyrir jafnmikilli fækkun starfa, líkt og sést á myndinni hér að ofan. Á meðan störfum í flestum geirum hefur fækkað umtalstvert á síðustu tólf mánuðum hefur sjávarútvegurinn bætt við sig 2.500 störfum, en það er fjölgun á við 55%.
Auk þess störfuðu tæplega sex þúsund fleiri við ýmsa sérhæfða þjónustu, að ferðaþjónustu undanskilinni, milli vormánaða 2019 og 2020, en við það hefur sá geiri næstum því tvöfaldast.
Lítil fækkun starfa í sjávarútvegi eftir COVID
Störfum í ferðaþjónustunni fór að fækka á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, eftir að hafa náð hápunkti undir lok síðasta sumars þegar greinin taldi rúmlega 33 þúsund störf. Eftir það hefur störfum í greininni fækkað með jöfnum hraða síðustu þrjá ársfjórðunga, en nú er talið að tæplega 14 þúsund störf séu eftir.
Á sama tíma fjölgaði störfum í sjávarútvegi úr tæplega 4 þúsundum í fyrrasumar í nær 8 þúsund í byrjun þessa árs, en störfunum fækkaði svo lítillega á milli fyrsta og annars ársfjórðungs þessa árs, þegar efnahagsleg áhrif COVID-19 faraldursins gerðu fyrst vart við sig.