Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrum utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, mun láta af störfum sem forstjóri lýðræðis- og mannréttindastofnunar Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) næstkomandi laugardag. Hún var ráðin í embættið fyrir þremur árum, á sama tíma og tveir aðrir forstjórar tóku við hjá öðrum undirstofnunum ÖSE og nýr framkvæmdastjóri ÖSE var skipaður.
Fram kemur í frétt RÚV um málið að ráðning þeirra fjögurra hafi haldist í hendur og framlenging á störfum þeirra hafi átt að gera það einnig, en öll sóttust þau eftir að starfa áfram.
Tyrkir vildu að hún útilokaði ákveðin félagasamtök frá fundum stofnunarinnar
57 ríki eiga aðild að ÖSE og hefur hvert þeirra neitunarvald þegar kemur að skipan æðstu yfirmanna. Ingibjörg Sólrún segir í samtali við mbl.is að það sem komið hafi upp hafi verið að Aserbaídsjan setti sig upp á móti þeim sem er yfir fjölmiðlastofnuninni. Tadsíkistan hafi síðar sett sig upp á móti skipan hennar og Tyrkir tekið undir. Því munu allir fjórir yfirmenn ÖSE láta af störfum.
„Tyrkland hefur viljað að ég útilokaði ákveðin félagasamtök frá fundum stofnunarinnar. Þau segja að það séu hryðjuverkasamtök, en ég hef ekki séð neinar sannanir fyrir því. Ég get ekki ákveðið upp á mitt eindæmi að útnefna samtök sem hryðjuverkasamtök,“ segir Ingibjörg Sólrún við mbl.is.
Hún játar því að það setji yfirmenn stofnunarinnar í erfiða stöðu að hvert einasta ríki hafi neitunarvald gagnvart skipan þeirra enda sé það hlutverk stofnunarinnar að hafa eftirlit með framferði ríkjanna. „Það gerir það í sjálfu sér. Við erum að strjúka ríkjunum andhæris.“
Ingibjörg Sólrún segir enn fremur að árin þrjú í starfi hafi verið ánægjuleg og hún hafi haft gaman af að vinna þar. „Ég sé eftir því samstarfi en það er auðvitað erfitt að vinna þegar reynt er að vængstýfa mann.“ Hún er á Íslandi núna og segir óvíst hvað framtíðin beri í skauti sér en að hún muni í það minnsta reyna að njóta íslenska sumarsins næstu vikur.
Harmar þessa niðurstöðu
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir í samtali við fréttastofu RÚV það vera áhyggjuefni að Ingibjörg Sólrún og aðrir forstjórar hjá ÖSE láti af störfum eftir að nokkur aðildarríki lögðust gegn því að þau fengju að starfa áfram.
„Ég harma þessa niðurstöðu og hún er áhyggjuefni. Þetta er auðvitað ekki annað en aðför að stofnuninni. Hvað okkar fulltrúa varðar þá er ég ásamt miklum meirihluta aðildarríkja þeirrar skoðunar að hún hafi sinnt starfi sínu af heiðarleika og fagmennsku og í samræmi við umboð sitt,“ segir hann.