Áætlanir Hagstofu Íslands gera ráð fyrir að landsframleiðsla hafi dregist saman um 9,3 prósent að raungildi, ef borið er saman við sama tímabil í fyrra. Þetta er mesti samdráttur sem mælst hefur í ársfjórðungstölum Hagstofu, en hann var einnig sá mesti á Norðurlöndunum á tímabilinu.
11 prósenta samdráttur í vinnustundum
Samkvæmt tilkynningu Hagstofu, sem kom út í morgun, gætir merkjanlegra áhrifa af heimsfaraldri COVID-19 í tölunum. Áhrifin séu ekki einungis bein afleiðing af takmörkunum á ferðalögum fólks á milli landa, heldur séu þau einnig fjölþætt í ljósi minni eftirspurnar af vöru og þjónustu á tímabilinu. Mælingar Hagstofu á vinnumagni benda einnig til þess að heildarfjöldi vinnustunda hafi dregist saman um 11,3 prósent á tímabilinu.
Einkaneyslan vegur þyngst
Þyngst vegur samdráttur í einkaneyslu, sem var tæpum 25 milljörðum minni á ársfjórðungnum en á sama tímabili í fyrra, en fjármunamyndun minnkaði einnig um tæpa 23 milljarða á sama tíma. Minni breyting var á viðskiptajöfnuði landsins, þar sem 98 milljarða króna samdráttur í innflutningi vó upp á móti 113 milljarða minnkun útflutnings.
Samneysla jókst hins vegar á nýliðnum ársfjórðungi um 15 milljarða króna, miðað við annan ársfjórðung í fyrra.
Mesti samdrátturinn á Norðurlöndum
Samdráttur mælist nú á nær öllum Vesturlöndum vegna heimsfaraldursins, en samkvæmt Hagstofu var hann að meðaltali um 11,7 prósent innan Evrópusambandsins. Samdrátturinn var þó ekki jafn á meðal allra Evrópulandanna, en landsframleiðsla dróst saman um minna en 9,3 prósent á öllum hinum Norðurlöndunum, auk Eystrasaltsríkjanna og Póllands.
Minnsti samdrátturinn í Norður-Evrópu á öðrum ársfjórðungi var í Finnlandi, þar sem landsframleiðslan dróst saman um 4,5 prósent.
Samdrátturinn var mun þyngri í Suður-Evrópu, en landsframleiðsla Ítalíu, Frakklands, Portúgals og Spánar dróst saman um meira en 12 prósent á öðrum ársfjórðungi. Mest dró þó úr landsframleiðslu í Bretlandi á tímabilinu, en samdrátturinn þar í landi nam 20,4 prósentum.