Henný Hinz hagfræðingur hefur verið ráðin sem aðstoðarmaður ríkisstjórnar með aðsetur í forsætisráðuneytinu. Henný mun meðal annars starfa að vinnumarkaðsmálum, þ.m.t. gerð grænbókar um vinnumarkaðsmál, auk þess að koma að stefnumótun um hagræn viðbrögð vegna loftslagsvárinnar, fjórðu iðnbyltinguna og öðrum efnahagslegum viðfangsefnum. Henný hefur störf þann 5. október næstkomandi.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins í dag.
„Henný er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur starfað hjá Alþýðusambandi Íslands frá árinu 2004 og sem deildarstjóri hagdeildar sambandsins frá árinu 2016. Henný hefur sinnt fjölbreyttum verkefnum og stefnumótun, m.a. á sviði efnahags- og kjaramála, velferðarmála, lífeyrismála, húsnæðismála og verðlags- og neytendamála auk þess að taka þátt í norrænu og alþjóðlegu samstarfi á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar,“ segir í tilkynningunni.
Henný er gift Kristjáni Geir Péturssyni lögfræðingi og þau eiga sex börn á aldrinum tveggja til 23 ára.