Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, gagnrýnir harðlega orð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, en hann sagði á þingi í gær að fyrir sauðfjárbændur væri starf þeirra „meira lífsstíll heldur en spurning um afkomu“.
Hún telur að það viti ekki á gott fyrir íslenskan landbúnað ef þetta séu viðhorf landbúnaðarráðherra til þeirra sem velja sér að stunda búskap að atvinnu. Ungt Framsóknarfólk lýsti yfir vantrausti á ráðherrann um helgina á sambandsþingi Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF).
Fram kom í máli ráðherrans á Alþingi í gærkvöldi að bændur hefðu að mörgu leyti mikið frelsi, þeir hefðu valið sér starfið. Hann sagði marga bændur segja sauðfjárbúskap vera meiri lífsstíl en spurningu um afkomu.
„Talandi um frelsi sem bændur þrá og hafa að mörgu leyti vegna þess einfaldlega að fólk kýs sér atvinnu, kýs sér búsetu. Það er svona fyrsti kosturinn sem að við getum sagt að fólk hafi frelsi um að velja. Ég held að það sé engin goðgá að ætla það menn kjósi af mörgum ástæðum að stunda sauðfjárbúskap. Maður heyrir viðtöl við sauðfjárbændur og á samtöl við þau, þar sem þeir segja að þetta er meira lífsstíll heldur en spurning um afkomu.“ sagði Kristján Þór í gær en RÚV greindi frá.
Silja Dögg spyr á Facebook hvort það sé virkilega landbúnaðarráðherra sem láti þessi orð falla í ræðustól Alþingis. „Eru garðyrkju- og kúabændur þá ekki bara að þessu líka til að hafa gaman, rétt eins og sauðfjárbændur? Bara litla sæta „hobbýið“ þeirra að framleiða mat fyrir þjóðina og tryggja fæðuöryggi okkar,“ segir hún í færslu sinni.
😲Er það virkilega landbúnaðarráðherra sem lætur þessi orð falla í ræðustól Alþingis? Eru garðyrkju- og kúabændur þá ekki...
Posted by Silja Dögg on Wednesday, October 7, 2020
Lýstu yfir vantrausti á ráðherrann
Ungt Framsóknarfólk lýsti yfir vantrausti á sitjandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um liðna helgi. Í ályktun SUF segir að störf ráðherra á kjörtímabilinu hafi sýnt að ráðherra mismuni málaflokkum með þeim hætti að málefni landbúnaðar sitji á hakanum og sé ekki sinnt.
„Landbúnaður er grundvallarstoð í íslensku samfélagi sem ekki má liggja milli hluta vegna mismunun ráðherra. Ungu Framsóknarfólki finnst það óásættanlegt að landbúnaðarráðuneytið sé einungis skúffa í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu,“ segir í ályktuninni.
Kalla eftir viðbrögðum stjórnvalda varðandi aðgerðir
Landssamtök sauðfjárbænda gagnrýna einnig harðlega málflutningi Kristjáns Þórs þess efnis að sauðfjárbændur telji að sauðfjárrækt á Íslandi snúist um lífstíl og að afkoma greinarinnar skipti ekki máli. Í tilkynningu frá samtökunum segir að þau hafi, þvert á móti, kallað eftir viðbrögðum stjórnvalda varðandi aðgerðir sem geta bætt starfsumhverfi greinarinnar.
„Telji ráðherra að sauðfjárbændur hafi ekki áhuga á afkomu sinni þá er hann ekki upplýstur um stöðu greinarinnar. Landssamtök sauðfjárbænda skora á stjórnvöld að efla landbúnaðarráðuneytið þannig að því sé stýrt af þekkingu og vilja til að starfa að uppbyggingu og eflingu landbúnaðar á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.
Bændasamtökin mótmæla harðlega málflutningi ráðherrans
Bændasamtök Íslands fordæma ummæli Kristjáns Þórs í tilkynningu sem þau sendu til fjölmiðla í dag. Samtökin mótmæla harðlega málflutningi ráðherrans.
„Það er alvarlegt mál ef ráðherra landbúnaðarmála fylgist það illa með þróun mála að hann telji réttmætt að kalla atvinnugreinina einhverskonar áhugamál, lífsstíl eða með öðrum orðum tómstundagaman. Það lýsir kannski best áhugaleysi ráðherrans á málaflokknum. Bændum er svo sannarlega ekki sama um afkomu sína og hafa lengi kallað eftir því að stjórnvöld láti það til sín taka, með takmörkuðum viðbrögðum.
Afkoma bænda er sannarlega áhyggjuefni. Afurðaverðsþróun í mörgum greinum, einkum kjötframleiðslu, er neikvæð vegna efnahagsþrenginga, markaðsþróunar og síaukins innflutnings sökum þess hvað tollvernd hefur rýrnað – ekki síst vegna aðgerða eða aðgerðaleysis stjórnvalda.
Bændasamtök Íslands skora á ráðherrann og ríkisstjórnina alla að ráða bót á því. Yfirlýsingar eins og komu fram í gærkvöldi hjá ráðherra landbúnaðarmála, eru skaðlegar hvað það varðar,“ segir í tilkynningunni.