Stefnu hjónanna Ingibjargar Pálmadóttur og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, og félags þeirra 365 ehf., á hendur fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækinu Sýn, þar sem þau kröfðust þriggja milljarða króna í bætur fyrir m.a. orðsporshnekki, hefur verið vísað frá í héraðsdómi Reykjavíkur. Það gerðist í síðustu viku, nánar tiltekið 28. október.
Samkvæmt því sem fram kemur í árshlutareikningi Sýnar töldust „dómkröfur stefnenda óljósar og óskýrar og slíkir annmarkar á málatilbúnaði að málinu var vísað frá. Stefnendur hafa kært úrskurðinn til Landsréttar.
Samkvæmt stefnunni i málinu töldu Ingibjörg og Jón Ásgeir að stefna Sýnar á hendur þeim, þar sem þau eru krafin um háa greiðslu vegna brots á kaupsamningi sem gerður var árið 2017, hafi skaðað þau „hughrif að stefnendur séu aðilar sem standi ekki við gerða samninga og skuldi háar fjárhæðir þegar fyrir liggur að orðspor er þeim einkar mikilvægt í viðskiptum frá degi til dags.“
Þau sögðu að málatilbúnaðurinn hefði valdið þeim miklum óþægindum, meðal annars í samskiptum við fjármálastofnanir, og viðbúið væri að svo yrði áfram eftir því sem málið komst í kastljós fjölmiðla. Ábatasöm viðskipti þeirra á erlendum vettvangi væru líka þegar í uppnámi vegna málsóknarinnar.
Enn fremur töldu þau að að markmið Sýnar með því að stefna sér væri að „breiða yfir afleitan rekstur Sýnar frá því að félagið tók við eignum 365 á ljósvaka- og fjarskiptamarkaði.“
Kveðið á um samkeppnisbann
Forsaga málsins er sú að Sýn keypti hluta af fjölmiðlaveldi 365 á árinu 2017 fyrir alls 7,9 milljarða króna. Um var að ræða alla ljósvakamiðlar félagsins og fréttavefinn Vísi.is. Eftir í 365 stóð Fréttablaðið og tengdir miðlar sem voru svo seldir til nýrra eigenda í fyrra og eru nú reknir í félaginu Torgi ehf.
Rekstur fjölmiðla Sýnar hafa ekki gengið vel frá því að kaupin áttu sér stað. Í byrjun árs lækkaði félagið til að mynda viðskiptavild vegna fjölmiðlanna sem keyptir voru um 2,5 milljarða króna.
Tekjur Sýnar af fjölmiðlarekstri drógust saman um 446 milljónir króna milli áranna 2018 og 2019 og á fyrstu níu mánuðum yfirstandandi árs drógust tekjur félagsins vegna fjölmiðlahluta rekstursins saman um 565 milljónir króna frá sama tímabili í fyrra.
Stefnt út af hlaðvarpi og Hringbraut
Sýn ákvað að stefna hjónunum og 365 vegna þess að stjórnendur Sýnar telja að tenging vefmiðilsins frettabladid.is við ljósvakamiðla, bæði útvarp og sjónvarp, sé með öllu óheimil samkvæmt kaupsamningnum frá árinu 2017. Miðillinn haldi úti hlaðvarpi, vísi á vef sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar (líka í eigu Torgs) af forsíðu sinni og sýni ýmis konar myndbönd, sem teljist ljósvakaefni. Vegna þessa hefur Sýn farið fram á að hinir stefndu greiði sér fimm milljónir króna fyrir hvern dag sem liðinn er frá samningsbroti. Í lok fyrsta ársfjórðungs stóð sú tala í 1,7 milljarði króna. Í dag hefur hún hækkað nokkuð, og er líklega komin yfir tvo milljarða króna. Þessi málarekstur er enn í gangi fyrir dómstólum.
Í nú frávísaðri gagnstefnu Ingibjargar og Jóns Ásgeirs, sem Markaðurinn fjallaði ítarlega um í vor, var þessu með öllu hafnað. Fyrir því voru tvö meginrök. Í fyrsta lagi seldi 365 eftirstandandi miðla sína, sem að uppistöðu var Fréttablaðið og vefur þess, til Helga Magnússonar fjárfestis og samstarfsmanna hans í fyrra í tveimur skrefum. Þegar það síðara var stigið, í október, var sjónvarpsstöðinni Hringbraut og tengdri síðu rennt inn í Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins. Þá þegar hafði Fréttablaðið hafið framleiðslu og birtingu á hlaðvarpi á frettabladid.is.
Hjónin höfnuðu því að umrædd hlaðvarpsgerð væri samkeppni við þá ljósvakamiðla sem seldir höfðu verið til Sýnar. Auk þess sögðust þau ekki bera ábyrgð á sjónvarpsrekstri Hringbrautar, enda hefðu þau verið búin að selja fjölmiðlanna þegar honum var rent inn í útgáfufélag Fréttablaðsins. Það hafi ekki verið staf krókur um það í kaupsamningnum að þau hafi verið skuldbundin til þess að sjá til þess að óskyldur þriðji aðili yrði bundinn af samkeppnisbanninu.
Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði málinu frá 28. október síðastliðinn þar sem dómkröfur Ingibjargar, Jóns Ásgeirs og 365 ehf., töldust óljósar og óskýrar og slíkir annmarkar á málatilbúnaði að vísa þyrfti málinu frá. Þeirri niðurstöðu hefur, líkt og áður sagði, verið áfrýjað til Landsréttar.