Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um lög til að binda enda á verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands. Vísir greinir frá.
Hún segir í samtali við Vísi að frumvarpið feli í sér að flugvirkjar fái frelsi til þess að klára samninga fyrir 4. janúar, annars fari deilan fyrir gerðardóm. Hún segir fulla samstöðu hafa verið um þessar aðgerðir í ríkisstjórn.
Flugvirkjar Landhelgisgæslunnar hafa verið í verkfalli frá 5. nóvember síðastliðnum. Samninganefndir flugvirkja og ríkisins funduðu hjá ríkissáttasemjara í gær en sá fundur skilaði ekki árangri, að því er fram kemur í frétt RÚV.
„Kjaradeila flugvirkja varðar almannahagsmuni og almannaöryggi og þess vegna er þessi leið óhjákvæmileg í ljósi alvarlegrar stöðu hjá Landhelgisgæslunni,“ skrifar dómsmálaráðherra á Twitter.
Kjaradeila flugvirkja varðar almannahagsmuni og almannaöryggi og þessvegna er þessi leið óhjákvæmileg í ljósi alvarlegrar stöðu hjá Landhelgisgæslunni. pic.twitter.com/lngGLyBEug
— Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (@aslaugarna) November 27, 2020
Ekkert lofthæft flugfar í augnablikinu
Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, sagði í samtali við RÚV í morgun að staðan væri afar slæm. „Við höfum ekkert lofthæft flugfar í augnablikinu, þessi eina þyrla sem við höfum verið að nota er stopp og nú ríður á að fá menn til vinnu til að ljúka skoðun á henni sem tekur tvo sólarhringa.“
Hann sagði jafnframt að ekki hefðu allir þeir flugvirkjar sem Landhelgisgæslan teldi að ættu að vera við vinnu mætt til að sinna viðhaldi, að undanskildun einum þyrluvaktarmanni. „Að öðru leyti hafa þeir ekkert látið sjá sig. Engar skýringar þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir, skriflegar og munnlegar. Enginn látið sjá sig.“
Taldi Landhelgisgæsluna brjóta lög um vinnudeilur
Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni fyrr í mánuðinum kom fram að ítrekuðum undanþágubeiðnum frá verkfalli vegna viðhaldsskipulagningar hefði verið hafnað af Flugvirkjafélagi Íslands. Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður flugvirkjafélags Íslands, sagði í samtali við mbl.is þann 12. nóvember síðastliðinn að Landhelgisgæsluna bryti lög um vinnudeilur með því að láta hluta flugvirkja félagsins starfa áfram þrátt fyrir verkfall. Þá væru þeir sem áfram starfi látnir ganga í störf þeirra sem væru í verkfalli.
Fram kom hjá mbl.is að af 18 flugvirkjum sem starfa hjá gæslunni væru aðeins sex í verkfalli. Af þeim væru átta sem eru svokallaðir spilmenn og ganga þeir útkallsvaktir á þyrlu gæslunnar. Guðmundur sagði að enginn ágreiningur væri uppi um að þeir aðilar væru ekki í verkfalli þar sem þeir væru viðbragðsaðilar og því gilti um þá lög sem viðbragðsaðila.
Stjórnvöld yrðu að höggva á hnútinn
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi málið undir liðnum störf þingsins á Alþingi í vikunni. Hann sagði gera yrði þá skýlausu kröfu til stjórnvalda að þau hyggju á þennan hnút.
„Við erum til taks. Þetta er kjörorð Landhelgisgæslunnar og blasir við á skjánum þegar farið er inn á heimasíðu hennar — nema í dag og á morgun, verður að bæta við frá og með miðnætti í kvöld. Þá verður drepið á síðustu þyrlunni og engin slík til taks næstu tvo sólarhringana. Ætli þetta sé ekki eini neyðarsíminn í heiminum, hjá þeim sem sjá um leit og björgun á fólki í lífsháska, þar sem svarið verður: Nei, því miður, það er lokað vegna vinnudeilna?
Það stendur á endum, það verður lokað rétt í þann mund sem óveður gengur yfir landið. Svo dæmi sé tekið þá gæti þyrla verið eina farartækið til bjargar mannslífum í mínum heimabæ, ef svo bæri undir strax í nótt, að ekki sé talað um öryggi sjómanna á hafi úti. En eftir níu klukkutíma tekur við svarið: Nei, því miður, það er lokað, engin þyrla til taks. Þyrlur Gæslunnar fara að meðaltali í 21 útkall á mánuði. Þar af eru sjö til tíu á hafi úti eða upp á hálendið þar sem öðrum björgum verður ekki við komið. Að nákvæmlega þessi þjónusta, leit og björgun, skuli leggjast af vegna vinnudeilna er auðvitað algjörlega óásættanlegt,“ sagði þingmaðurinn.
Hann sagði enn fremur að gera yrði þá skýlausu kröfu til stjórnvalda að þau hyggju á þennan hnút, ef ekki með samningum þá með lagasetningu. „Mannslíf geta verið í húfi og ábyrgð þeirra sem komið hafa málum í þessa stöðu er mikil.“