Fjöldi íbúða á sölu á höfuðborgarsvæðinu er nú minni en hann hefur verið á síðustu árum, auk þess sem hlutfall íbúða sem seldar eru á yfirverði hefur nær tvöfaldast. Á sama tíma hefur meðalsölutími dregist hratt saman á höfuðborgarsvæðinu og verðvísitalan hefur hækkað um tæp sex prósent. Þetta kemur fram í nýjustu mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), sem kom út í morgun.
Íbúðum á sölu fækkar verulega
Samkvæmt skýrslunni er mikil eftirspurn eftir húsnæði undanfarna mánuði farin að hafa mikil áhrif á framboð af eignum. Meðalfjöldi eigna til sölu á höfuðborgarsvæðinu, sem verið á bilinu 1.600 til 2.200 eignir, hefur einnig minnkað hratt. Eftir fyrra samkomubannið í vor var þessi fjöldi í hámarki eða um 2.200 eignir og hefur síðan þá lækkað niður fyrir 1.200 eignir, sem er mun minna framboð en hefur verið á síðustu árum.
Verð hækkar í höfuðborginni en lækkar á landsbyggðinni
Með aukinni eftirspurn og minna framboði af eignum á sölu hefur verð hækkað töluvert á árinu og virðist vera mikil samkeppni um eignir. Hækkunin er sérstaklega mikil á höfuðborgarsvæðinu, en á milli októbermánaða 2019 og 2020 hefur vísitala söluverðs íbúða þar hækkað um 5,8 prósent. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hefur vísitalan svo hækkað um 4,2 prósent. Annars staðar á landinu hefur vísitalan hins vegar lækkað um 1,8 prósent á tímabilinu.
Minni sölutími og fleiri íbúðir á yfirverði
Eftir því sem virknin á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist hefur hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði einnig aukist til muna. Í júní seldust 11 prósent íbúða á yfirverði, en í október seldist rúmur fimmtungur íbúðanna á yfirverði, ef miðað er við þriggja mánaða hlaupandi meðaltal.
Á sama tíma hefur meðalsölutími dregist hratt saman á höfuðborgarsvæðinu síðan í vor, en samkvæmt HMS er það í samræmi við að framboðið sé að dragast saman, verðið sé að hækka og fleiri eignir að fara á yfirverði. Samkeppnin um eignir virðist vera mikil og því styttist sölutíminn.
Sölutími nýrra eigna á höfuðborgarsvæðinu fór hæst upp í 79 daga að meðaltali í samkomubanninu, en hefur nú styst niður í 61 dag. Fyrir aðrar eignir hefur tíminn styst úr 49 dögum niður í 43 og hefur ekki mælst jafnstuttur síðustu sjö árin.
Búist við meiri verðhækkunum
Samkvæmt skoðanakönnun sem Zenter gerði fyrir HMS í nóvember þá telja 70 prósent svarenda að fasteignaverð muni koma til með að hækka á næstu 12 mánuðum. Einungis 6 prósent sveranda telja að fasteignaverð muni lækka á tímabilinu. Samhliða væntingum um áframhaldandi verðhækkunum bendir könnunin til þess að áhugi fólks á að kaupa sér íbúð í náinni framtíð hafi dvínað, miðað við sambærilegar kannanir í apríl og júlí á þessu ári. Þó er hlutfall væntanlegra kaupenda hátt, ef litið er aftur til síðustu þriggja ára.