Fimmtán manns sóttu um starf orkumálastjóra, sem auglýst var undir lok síðasta árs. Á meðal umsækjenda eru Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Björn Óli Hauksson, fyrrverandi forstjóri Isavia og Jón Þór Sturluson fyrrverandi aðstoðarforstjóri FME, svo einhverjir séu nefndir.
Fram kemur í tilkynningu á vef stjórnarráðsins að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, muni skipa í stöðuna frá og með 1. maí 2021. Ráðherra hefur skipað nefnd til að meta hæfni umsækjenda og skila greinargerð um þá. Í henni sitja Kristín Haraldsdóttir lektor og formaður nefndarinnar, Birgir Jónsson rekstrarhagfræðingur og Ingvi Már Pálsson skrifstofustjóri.
Guðni A. Jóhannesson hefur verið orkumálastjóri allt frá árinu 2008, en hann var skipaður í stöðuna af Össuri Skarphéðinssyni sem þá var iðnaðarráðherra. Staða orkumálastjóra varð til árið 1967 þegar ný orkulög tóku gildi og Orkustofnun tók til starfa, en orkumálastjóri er forstjóri þeirrar stofnunar, auk þess að vera ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í orkumálum og öðrum auðlindamálum.
Fjórir hafa gegnt þessari stöðu til þessa og verður nýr orkumálastjóri því sá fimmti frá árinu 1967.
Listi umsækjenda um stöðuna:
- Auður Sigurbjörg Hólmarsdóttir, hönnuður
- Baldur Pétursson, verkefnastjóri
- Benedikt Stefánsson, framkvæmdastjóri
- Björn Óli Hauksson, ráðgjafi
- Fjóla Guðrún Sigtryggsdóttir, verkfræðingur
- Guðmundur Bergþórsson, verkefnastjóri
- Guðmundur Þóroddsson, stjórnarformaður
- Halla Hrund Logadóttir, meðstofnandi og framkvæmdastjóri
- Heiðrún Erika Guðmundsdóttir, deildarstjóri
- Jónas Ketilsson, yfirverkefnisstjóri
- Jón Þór Sturluson, dósent
- Lárus M. K. Ólafsson, sérfræðingur og viðskiptastjóri
- Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri
- Silja Rán Steinberg Sigurðardóttir, verkefnastjóri
- Sigurjón Norberg Kjærnested, forstöðumaður