Svavar Gestsson fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, ráðherra og sendiherra lést á gjörgæsludeild Landspítala aðfaranótt 18. janúar. Hann fæddist á Guðnabakka í Stafholtstungum 26. júní 1944 og var því 76 ára gamall við andlát sitt.
Svavar varð stúdent frá MR árið 1964 og innritaðist í lögfræði við Háskóla Íslands sama ár. Meðfram námi starfaði hann meðal annars við Þjóðviljann, hjá Samtökum hernámsandstæðinga og hjá Alþýðubandalaginu. Hann var í föstu starfi hjá Þjóðviljanum frá 1968 og var svo ritstjóri blaðsins frá 1971 og þar til hann tók sæti á þingi fyrir Alþýðubandalagið árið 1978.
Hann var þingmaður fyrir Alþýðubandalagið samfleytt fram til ársins 1999, þó að síðustu þingdaga sína hafi hann setið í nýjum þingflokki Samfylkingarinnar. Hann var formaður Alþýðubandalagsins á árunum 1980-87.
Svavar var viðskiptaráðherra árin 1978-79, félags-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1980-83 og menntamáaráðherra 1988-91.
Eftir að þingferli Svavars lauk var hann skipaður aðalræðismaður Íslands í Winnipeg og gegndi því starfi til ársins 2001. Þá varð hann sendiherra Íslands í Svíþjóð 2001–2006 og síðan sendiherra Íslands í Danmörku 2006–2010. Einnig var hann sendiherra Íslands gagnvart Afríkusambandinu 2008.
Svavar gaf út ævisögu sína Hreint út sagt árið 2012. Áður hafði hann skrifað bókina Sjónarrönd, jafnaðarstefnan - viðhorf árið 1995. Einnig ritaði hann fjölda greina um stjórnmál í blöð og tímarit.
Eftirlifandi eiginkona Svavars er Guðrún Ágústsdóttir, fyrrum borgarfulltrúi í Reykjavík. Svavar eignaðist þrjú börn með fyrri konu sinni Jónínu Benediktsdóttur. Á meðal þeirra er Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Forsætisráðherra minnist Svavars
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra minnist Svavars á Facebook. Hún segir þar frá heimsókn fjölskyldu sinnar til Svavars og Guðrúnar í ágúst.
„Þar var tekið konunglega á móti okkur, eldað ofan í þrjá svanga drengi og spjallað fram eftir kvöldi um stjórnmálin fyrr og nú,“ skrifar Katrín og lætur fylgja að Svavar hafi haft „óþrjótandi áhuga á stjórnmálum en ekki síst fólki.“
Forsætisráðherra segir Svavar hafa skilið eftir sig djúp spor í hugum allra sem þekktu hann.
„Ég kynntist Svavari í raun sem pabba Svandísar og Gests en mundi auðvitað eftir honum frá fyrri tíð; hitti hann fyrst á framboðsfundi í Menntaskólanum við Sund vorið 1995. Það var engin spurning í mínum huga eftir þann fund hvern ég myndi kjósa þá. Nú er þessi stjórnmálaskörungur fallinn frá eftir strembna banalegu. En fyrst og fremst er fallinn frá maður sem skildi eftir sig djúp spor í hugum okkar allra sem þekktum hann og nálgaðist tilveruna af áhuga og ástríðu allt til loka. Votta Guðrúnu, Svandísi, Benna og Gesti og fjölskyldunni allri samúð okkar fjölskyldunnar,“ skrifar Katrín Jakobsdóttir.