Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur ákveðið að heimila veiðar á allt að 61 þúsund tonni af loðnu á fiskveiðiárinu 2020/2021. Það er aukning um 39.200 tonn frá fyrri ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar en nýja reglugerðin um útgefinn kvóta, sem Kristján Þór hefur undirritað, er einnig í samræmi við ráðgjöf stofnunarinnar: Hún var endurskoðuð eftir mælingar á loðnustofninum í síðustu viku.
Á ríkisstjórnarfundi í morgun gerði Kristján Þór einnig grein fyrir því að rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, Árni Friðriksson, hafi farið af stað til frekari mælinga síðastliðinn sunnudag. Í dag fara svo þrjú skip frá útgerðum loðnuskipa til loðnuleitar og því munu samtals fjögur skip sinna mælingunum næstu daga. Auk þess eru tvö loðnuskip til viðbótar tilbúin að koma að verkefninu ef þörf verður á.
Enginn loðnukvóti hefur verið gefinn út í tvö ár. Til að átta sig á virði loðnuveiða er vert að benda á að loðna var flutt út á erlenda markaði fyrir 18 milljarða króna árið 2017, 18,3 milljarða króna árið 2016 og heila 29 milljarða króna árið 2015.
Í skýrslu sem var unnin um stöðu, áhrif og afleiðingar loðnubrests 2019 fyrir Vestmannaeyjar, og birt var snemma árs í fyrra, kom fram að loðnubrestur hefði þar bein áhrif á 350 starfsmenn og ígildi 60 ársverka. Tapaðar launatekjur í Vestmannaeyjum væru að minnsta kosti 1.000 milljónir króna. Tekjutap útgerðarfyrirtækja væri um 7.600 milljónir króna og annarra fyrirtækja um 900 milljónir. Vestmannaeyjabær og Vestmannaeyjahöfn yrðu af um 160 milljónum sökum þessa, samkvæmt skýrslunni, sem var unnin fyrir bæjarstjórn Vestmannaeyja.