Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að halda meginvöxtum sínum óbreyttum í 0,75 prósentum, samkvæmt tilkynningu sem þeir birtu fyrr í dag.
Í tilkynningunni bendir nefndin á nýjustu hagspá Seðlabankans, en samkvæmt henni varð efnahagssamdrátturinn minni á síðustu mánuðum síðasta árs sökum sterkari eftirspurnar innanlands en áður var talið. Á þessu ári séu einnig horfur á að innlend eftirspurn vaxi meira en áður var spáð, en á móti vegi lakari útflutningshorfur.
Nefndin spáir því að verðbólga, sem mælist 4,3 prósent í þessum mánuði, verði um 3,9 prósent að meðaltali á fyrstu þremur mánuðum ársins. Búist er við að verðbólgan hjaðni tiltölulega hratt er líður á árið, þar sem töluverður slaki sé til staðar í þjóðarbúinu og gengi krónunnar hefur hækkað undanfarna mánuði.
Nefndin segist munu beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að styðja við þjóðarbúskapinn og tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma. Næsti vaxtaákvörðunardagur nefndarinnar er þann 24. mars.