Reynir Traustason ritstjóri og Trausti Hafsteinsson, fréttastjóri Mannlífs, hafa keypt vörumerkið Mannlíf og lénið mannlif.is af Birtingi útgáfufélagi. Birtingur útgáfufélag er í eigu Goðdala sem er 100 prósent í eigu Sigríður Dagnýjar Sigurbjörnsdóttur.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reyni Traustasyni.
Kaup Reynis og Trausta eru í gegnum einkahlutafélagið Sólartún ehf, sem er að 75 prósent hluta í eigu Reynis og Trausti er eigandi að 25 prósenta hlut í félaginu.
Auk þeirra Reynis og Trausta, starfa Kristjón Kormákur Guðjónsson og Hjálmar Friðriksson á fréttastofu miðilsins, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Reynir segir í tilkynningunni ánægjulegt að fá tækifæri til að leiða Mannlíf áfram og nú sem eigandi. „Við höfum verið í mikilli sókn undanfarin misseri. Af lestrarmælingum má ætla að lestur Mannlífs sé í dag talsvert meiri en samanlagður lestur þeirra þriggja netmiðla sem við bárum okkur saman við þegar ég hóf störf sem ritstjóri Mannlífs. Á bilinu 50-60 þúsund lesendur heimsækja vef Mannlífs að jafnaði á hverjum degi og við munum halda áfram að höfða til ört stækkandi lesendahóps.“