Talað er um að horft verði til bæði skattalækkana og frekari eflingu almannaþjónustunnar í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, sem kynntur var í dag. Hvað skattana varðar er þó ekki settar fram nein útfærð stefna um breytingar. Það á að sjá til hvernig fram vindur í ríkisfjármálum.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir við Kjarnann að ef svigrúm verði til einhverra skattalækkana komi á kjörtímabilinu verði þær í þágu þeirra tekjulægstu í eða til þess að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja.
„Það er talað um það að við ætlum ekki að fara í niðurskurð heldur munum við horfa til þróunar ríkisfjármála og eftir því sem þróun þeirra leyfir verði horft til þess að efla almannaþjónustuna annars vegar og lækka skatta ef svigrúm er til, þannig að það nýtist hinum tekjulægstu eða styrki samkeppnisstöðu fyrirtækja,“ sagði forsætisráðherra í samtali við Kjarnann á Kjarvalsstöðum fyrr í dag, en þar var stjórnarsáttmálinn kynntur á blaðamannafundi.
Í sáttmálanum segir að horft verði sérstaklega til skattbreytinga hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, ef af einhverjum breytingum þá verður.
„Það er ekki verið að lofa neinu, þetta hlýtur að hanga í raun og veru á því hvernig gengur,“ segir Katrín.
Niðurskurður ekki á dagskrá
Katrín segir það ef til vill vera „stóru tíðindin“ hvað efnahagsmál varðar að ríkisstjórnin sé ekki að boða niðurskurð í almannaþjónustunni og á henni er að heyra að hún sé þokkalega bjartsýn á þróun ríkisfjármála.
„Við erum að koma miklu betur út úr árinu en þegar fjármálaáætlun var samþykkt á sínum tíma. Það vekur manni bjartsýni um að við séum að ná þessum markmiðum um að vaxa út úr kreppunni.“
Um efnahagsmálastefnu ríkisstjórnarinnar er fjallað á fyrstu síðum stjórnarsáttmálans, undir yfirskriftinni Við ætlum að vaxa til meiri velsældar. Þar segir auk annars að ríkisstjórnin muni „stuðla að því að skattkerfið standi undir samneyslu og gegni tekjujöfnunarhlutverki, reglur skattkerfsins séu skýrar og réttlátar og að framkvæmd þeirra sé skilvirk og gagnsæ.“