Fimm íslensk fyrirtæki eru á lista Business Insider yfir 24 svölustu tækni- og nýsköpunarfyrirtækin á Norðurlöndunum, en listinn birtist á síðunni í dag.
Tölvuleikjafyrirtækið CCP er það íslenska fyrirtæki sem fer hæst á listann, en fyrirtækið er í sjöunda sæti.
Meniga er svo næst, í 19. sæti, en fyrirtækið hefur gefið út fjármálasmáforritið Meniga sem byggir á sömu hugmynd og þjónustan sem fyrirtækið hefur boðið í gegnum íslenska banka. Fyrirtækið CoKonnect er í 20. sæti, en það gerði smáforrit fyrir skemmtistaði og aðra staði til að gera þeim kleift að telja fjölda inn á staði og hafa gestalista á einum stað.
Blendin vermir 22. sætið, en Blendin er enn eitt smáforritið á listanum, og gengur út á að tengja saman fólk sem er á leiðinni út á lífið. Þá er Bungalo í 23. sæti, en fyrirtækið er ferðaþjónustufyrirtæki sem starfar á Íslandi og í Kanada.
Sænsk fyrirtæki verma þrjú efstu sætin hjá Business Insider. Í efsta sæti á listanum er tónlistarveitan Spotify, stærsta streymissíða í heimi. Í öðru sæti er fyrirtækið King, sem er fyrirtækið á bak við fjöldann allan af tölvuleikjum. Frægasti leikurinn er Candy Crush. Í þriðja sæti er annað tölvuleikjafyrirtæki, Mojang, sem bjó til Minecraft og seldi til Microsoft fyrir 2,5 milljarða dala.