Um 24,3 prósent sögðust vera fylgjandi því að lögleiða neyslu kannabisefna nú, borið saman við 12,7 prósent 2011. Þetta leiðir ný könnun frá MMR í ljós, en hún var framkvæmd dagana 16. til 21. apríl og var heildarfjöldi svarenda 1001 einstaklingar, átján ára og eldri.
Um 46,2 prósent þeirra sem styðja Pírata sögðust fylgjandi því að lögleiða ætti neyslu kannabisefna á Íslandi. 28 prósent þeirra sem ekki studdu ríkisstjórnina sögðust vera fylgjandi lögleiðingu á neyslu kannabisefna á Íslandi, borið saman við 12,9 prósent þeirra sem studdu ríkisstjórnina.
Karlar voru frekar hlynntir því að neysla kannabisefna yrði gerð lögleg á Íslandi en konur. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 31,4 prósent karla vera fylgjandi lögleiðingu á neyslu kannabisefna, borið saman við 16,5 prósent kvenna, samkvæmt fréttatilkynningu MMR.
„Stuðningur við lögleiðingu á neyslu kannabisefna fór minnkandi með hærri aldri. Þannig sögðust 42,6 prósent þeirra sem tilheyrðu yngsta aldurshópnum (18-29 ára) vera fylgjandi lögleiðingu á neyslu kannabisefna, borið saman við 22,6 prósent þeirra sem tilheyrðu aldurshópnum 30-49 ára, 14,6 prósent þeirra sem tilheyrðu aldurshópnum 50-67 ára og þrjú prósent þeirra sem tilheyrðu elsta aldurshópnum (68 ára og eldri). Þeir sem höfðu lægri heimilistekjur voru líklegri til að vera fylgjandi lögleiðingu á neyslu kannabisefna en þeir sem höfðu hærri heimilistekjur. Þannig sögðust 44,3 prósent þeirra sem tilheyrðu lægsta tekjuhópnum (heimilistekjur undir 250 þúsund krónur á mánuði) vera fylgjandi lögleiðingu á neyslu kannbisefna, borið saman við 23,6 prósent þeirra sem tilheyrðu hæsta tekjuhópnum (heimilistekjur yfir milljón á mánuði),“ segir í tilkynningu MMR.
Þeir sem ekki sögðust styðja ríkisstjórnina voru líklegri til að vera fylgjndi lögleiðingu á neyslu kannabisefna en þeir sem sögðust styðja ríkisstjórnina.
Þeir sem sögðust styðja Pírata voru líklegri en þeir sem studdu aðra flokka til að vera fylgjandi lögleiðingu á neyslu kannabisefna á Íslandi, eins og áður sagði. Af þeim sem tóku afstöðu og sögðust styðja Pírata voru 46,2 prósent fylgjandi því að lögleiða Kannabisefni, borið saman við 11,2 prósent þeirra sem studdu Vinstri-græn, að því er segir í tilkynningu MMR.