Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafssonar sem var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Al Thani- málinu í síðasta mánuði, skipulagði fund með aðstandendum sakborninga í málinu sem fram fór á Hilton hótelinu í hær. Um 250 manns mættu á fundinn. Þetta kemur fram á vef Viðskiptablaðsins.
Þar segir að verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, Hörður Felix Harðarson, og verjandi Sigurðar Einarssonar, Ólafur Eiríksson, hafi tekið til máls á fundinum og farið yfir dóminn. Auk þess mætti Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum hæstaréttardómari, á fundinn og lýsti skoðun sinni á dómnum.
Þungir dómar
Dómur féll í Al Thani-málinu þann 12. febrúar síðastliðinn. Þar voru þeir Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem átti tæplega tíu prósent hlut í Kaupþingi fyrir fall hans, voru allir dæmdir sekir. Hreiðar Már fékk fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður fjögur ár, Ólafur og Magnús fjögur og hálft ár.
Al-Thani málið, sem er eitt umfangsmesta efnahagsbrotamál sem komið hefur á borð dómstóla hér á landi, á rætur að rekja til hlutabréfakaupa sheikh Mohammad Bin Khalifa Al-Thani frá Katar hinn 22. september 2008 en félag hans keypti 5,01 prósenta hlut í Kaupþingi banka fyrir 25,7 milljarða króna með láni frá bankanum.
Byrjaðir að afplána
Tveir sakborninganna, Ólafur Ólafsson og Hreiðar Már Sigurðsson, eru þegar byrjaðir að afplána dóma sína á Kvíabryggju. Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson hafa einnig óskað eftir því að fá að hefja afplánun sem fyrst. Hreiðar Már, Sigurður og Magnús, ásamt fleirum fyrrum starfsmönnum Kaupþings, hafa einnig verið ákærðir í fleiri málum sem tengjast bankahruninu. Því gæti farið svo að þeir hljóti fleiri fangelsisdóma.