Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo eru 26.675 einstaklingar á vanskilaskrá fyrirtækisins í dag. Einstaklingum á listanum fer fækkandi, en til marks um það voru 27.417 einstaklingar á vanskilaskrá á sama tíma í fyrra.
Aðilum sem eru með áskriftarsamning við Creditinfo býðst að senda mál inn á vanskilaskrá. Til þess að senda inn mál þurfa vanskil að hafa staðið yfir í 40 daga eða meira og fjárhæðin að nema 50.000 krónum að lágmarki hjá einstaklingum. Það má þó skrá árangurslaus fjárnám og gjaldþrotaúrskurði án tillits til fjárhæða.
Bankahrunið hafði sitt að segja
Einstaklingum á vanskilaskrá fjölgaði ört í kjölfar efnahagshrunsins í lok árs 2008. Við upphaf hrunsins voru 16.859 einstaklingar á listanum, en ári síðar voru þeir orðnir 19.530 talsins, og hafði fjölgað um hátt í 2.700 manns á aðeins einu ári.
Fjöldinn náði svo hámarki í nóvember árið 2013 þegar 28.140 einstaklingar voru skráðir á vanskilaskrá Creditinfo, en þá byrjaði að fækka aftur á listanum og hefur sú þróun varað nánast sleitulaust.
Flestir á vanskilaskrá eru á aldrinum 30 til 39 ára, eða 10,7 prósent þeirra sem tilheyra aldurshópnum sem er sama hlutfall og á aldursbilinu 40 til 49 ára, en þar eru færri einstaklingar undir.
Ástandið verst á Suðurnesjum
Þá eru 16,8 prósent einstæðra mæðra og 14,5 prósent einstæðra feðra á vanskilaskrá, en karlar eru mun líklegri til að lenda á listanum en konur, 10,3 prósent karla eru á vanskilaskrá og 6,1 prósent kvenna.
Á höfuðborgarsvæðinu eru 9,5 prósenta íbúa á vanskilaskrá, en ástandið er sýnu verst á Reykjanesi þar sem 15,4 prósent íbúa eru á listanum.
Samkvæmt niðurstöðum Creditinfo er einstæður faðir á aldrinum 18-29 ára búsettur á Reykjanesi líklegastur til að fara á vanskilaskrá, á meðan öldruð kona í þéttbýli á Austurlandi er ólíklegust til að hafna á listanum.
Fyrirtækjum á vanskilaskrá fækkar líka
Sama þróun hefur átt sér stað hvað varðar lögaðila, en fyrirtækjum á vanskilaskrá fer sömuleiðis fækkandi, þó er þróunin þar ekki eins ör. Í október árið 2008 voru 3.958 fyrirtæki eða félög á vanskilaskrá Creditinfo. Ári síðar voru þau orðin 5.277 og hafði fjölgað um ríflega þrettán hundruð.
Fjöldinn náði hámarki í ágústmánuði árið 2012 þegar lögaðilar á vanskilaskrá urðu 6.978 talsins. Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo eru nú 6.399 félög á vanskilaskrá fyrirtækisins, samanborið við 6.421 mánuðinn á undan og 6.751 á sama tíma fyrir ári.