285 starfsmenn á Landspítalanum hafa sagt upp störfum síðustu vikur. Þar af eru 235 hjúkrunarfræðingar, en lífeindafræðingar, ljósmæður og geislafræðingar hafa einnig sagt upp störfum. Morgunblaðið greinir frá þessu.
81 hjúkrunarfræðingur hefur sagt upp störfum á aðgerðasviði, 24 á flæðisviði, 14 á geðsviði, 22 á kvenna- og barnasviði, 49 á lyflækningasviði og 45 á skurðlækningasviði. Á sumum deildum spítalans hafa þrír af hverjum fjórum hjúkrunarfræðingum sagt upp störfum.
Þá hafa yfir 250 hjúkrunarnemar á fyrsta, öðru og þriðja ári í hjúkrun við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri lýst því yfir að þeir muni ekki ráða sig í störf hjúkrunarfræðinga að lokinni útskrift. Hjúkrunarfræðinemarnir lýsa yfir miklum áhyggjum af kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga í yfirlýsingu sem send var heilbrigðisráðherra og fjölmiðlum.
Í Morgunblaðinu í dag segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, að alvarleg staða komi upp hvað varðar hjartaaðgerðir ef uppsagnir þriggja starfsmanna sem starfa við hjarta- og lungnavél ganga eftir. Báðir lífeindafræðingarnir sem starfa við vélina auk hjúkrunarfræðings hafa sagt upp. Þá sögðu tíu lífeindafræðingar upp störfum á sýkladeild í gær. Páll segir að erlendir sérfræðingar verði fengnir til að leysa af nokkra sérhæfða starfsmenn í sumar til að hægt verði að framkvæma nauðsynlegustu hjartaaðgerðirnar. Það sé hins vegar aðeins gert í neyð enda sé það mjög dýrt úrræði.