Fasteignaverð hefur sjaldan eða aldrei hækkað jafn skarpt eins og undanfarna þrjá mánuði, en hækkunin í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu, nemur 4,2 prósentum. Þetta þýðir að íbúð sem kostaði 30 milljónir, hefur hækkað að markaðsvirði um 1.260 þúsund á einungis þremur mánuðum, og ef þróunin heldur áfram með sama hætti í eitt ár, þá hækkar virði 30 milljóna íbúðar um 5,3 milljónir, á einu ári.
Greinendur hafa að undanförnu bent á þessa skörpu hækkun, og sagði meðal annars í hagsjá Landsbankans á dögunum: „Þetta eru miklar hækkanir sem koma í kjölfar mikilla hækkana bæði í desember og í janúar. Árshækkun fjölbýlis er nú 11,6% og árshækkun sérbýlis 8,1%. Alls hefur fasteignaverð því hækkað um 10,8% síðustu 12 mánuði. Þar sem verðhjöðnun hefur verið síðasta árið á mælikvarða vísitölu neysluverðs án húsnæðis hefur raunverð hækkað meira en nafnverðið.“
En er þessi þróun eðlileg? Það er erfitt að segja til um það, þegar markaðsþróun sem þessi er annars vegar, en hún er að einhverju leyti í takt við spár greinenda á markaði og Seðlabanka Íslands einnig. Þær gerðu þó ekki ráð fyrir jafn hraðri hækkun fasteignaverðs og hefur verið undanfarna þrjá mánuði, en að verðhækkunin myndi hanga saman við kaupmáttaraukningu.
Velta á markaðnum hefur einnig verið að aukast nokkuð, milli mánaða, samkvæmt upplýsingum Fasteignaskrár Íslands.
Spá hagfræðideildar Landsbankans gerir ráð fyrir um 25 prósent hækkun fasteignaverðs næstu þrjú árin, eða út árið 2017.