365 miðlar hafa gert samning við veðurfyrirtækið Belging um að Belgingur sjái um veðurfréttir í miðlum 365, Stöð 2, Fréttablaðinu og Vísi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá 365.
Kjarninn greindi frá því í gær að öllum veðurfréttakonum Stöðvar 2 hefði verið sagt upp störfum, en þeim var tilkynnt um uppsagnirnar fyrir helgi. Samkvæmt heimildum Kjarnans stendur til að ráðast í breytingar á opna glugganum svokallaða í dagskrá Stöðvar 2 á næstu vikum.
„Nýja fyrirkomulagið sem felur í sér ýmsar nýjungar verður tekið upp á næstu vikum. Um er að ræða öflugri veðurþjónustu og betri framsetningu en verið hefur,“ segir í fréttatilkynningunni frá 365. Þar er haft eftir Kristínu Þorsteinsdóttur, aðalritstjóra 365, að fyrst og fremst verði þetta betri þjónusta við lesendur, hlustendur og áhorfendur.